Prófessor býst við pólitísku stríði

14.03.2015 - 20:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir utanríkisráðherra ganga lengra í túlkun sinni á bréfi ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins en aðrir hafi gert síðustu daga.

 

„Megintíðindin í þessu máli öllu séu þau að svo virðist sem að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leggja ekki aftur fram þingsályktunartillögu um að afturkalla formlega umsóknina að Evrópusambandinu. Í staðinn skrifar ráðherrann þetta bréf sem er nú dálítið óljóst,“ segir hann. 

Sér hafi sýnst að flestir líti svo á að bréfið sé fyrst og fremst árétting á stefnu ríkisstjórnarinnar. „Ef hins vegar ríkisstjórnin lítur svo á að með þessum hætti hafi formlega umsóknin verið afturkölluð þá má búast við að það fari í gang mikið pólitískt stríð út af því,“ segir Ólafur. 

Túlkunin á bréfinu skipti afar miklu máli ef ný ríkisstjórn vilja hefja viðræður við ESB það er hvort þyrfti að byrja með nýja umsókn eða halda áfram þeirri gömlu.

„Mér finnst tónninn í þessu viðtali vera töluvert annar heldur en aðrir til dæmis formaður utanríkismálanefndar hafa verið að setja fram síðustu dagana,“ segir Ólafur. „Þannig að það er töluvert annað sjónarhorn og verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnarmeirihlutinn vinnur úr því.“

Þannig að utanríkisráðherra gengur aðeins lengra? „Já ég held það.“

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi