Procar bílaleiga gæti enn misst starfsleyfið

23.04.2019 - 18:46
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Guðmundsson - RÚV
Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu segir enn mögulegt að bílaleigur sem hafi orðið uppvísar að ökumælasvindli verði sviptar starfsleyfi. Öll gögn sem bendi til slíks misferlis hafi verið afhent lögreglu. 

Kveikur fjallaði í byrjun árs um Procar, bílaleiguna sem varð uppvís að því að hafa átt við kílómetrastöðu í minnst hundrað bílum á 5 ára tímabili. Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda gagnrýndi um helgina viðbragðsleysi vegna málsins. Bílaleigan starfi enn, með starfsleyfi frá Samgöngustofu, engin kæra hafi borist frá lögreglu vegna málsins og svo virðist sem ekki sé verið að undirbúa löggjöf til að sporna við brotum af þessu tagi. 

„Þegar þessi mál komu upp og grunur lék á og jafnvel játningar lágu fyrir um misferli þá er það að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál, grafalvarlegt. Við óskuðum eftir gögnum frá öllum 140 ökutækjaleigunum og höfum fengið þau og þau tilfelli þar sem er grunur um misferli eða jafnvel játað, þeim gögnum hefur verið komið til lögreglunnar því það er að sjálfsögðu mjög ámælisvert og saknæmt.“ segir Þórólfur. 

Þórólfur segist ekki tjá sig um einstök mál. Málunum sé ekki lokið hjá Samgöngustofu. Séu brotin jafn alvarleg og þau líti út fyrir að vera verði gripið til leyfissviptingar. „Við höfum farið í það að sjá með hvaða hætti við getum þrengt eða jafnvel tekið það af í einstaka tilvikum og höfum meðal annars átt fund með ákveðnum rekstraraðilum og við gætum stjórnsýslulaga og það er andmælaréttur hjá viðkomandi aðilum og við förum rétt og óskum eftir skýringum og eftir atvikum getur það endað með leyfissviptingu.“

Hann hafnar því að skerpa þurfi á eftirliti með bílaleigubifreiðum. „Það eru nú einu sinni lög í landinu og við förum eftir lögum, við förum eftir þeim heimildum sem við höfum og það hefur nú stundum verið gagnrýnt af atvinnulífinu ef opinberir aðilar hafa farið með offorsi og ekki með fullum heimildum. Við ætlum ekki að láta slíkt um okkur spyrjast, við förum eftir öllum þeim heimildum sem við höfum og gerum þetta eins hratt og mögulegt er.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi