Prinsessa, seiðkarl og nornirnar í New York

Mynd: Pixabay / Pixabay

Prinsessa, seiðkarl og nornirnar í New York

23.05.2019 - 17:13

Höfundar

Um þessar mundir er nokkuð fjaðrafok í kringum norsku konungsfjölskylduna því prinsessan Martha Louise er byrjuð með seiðkarli. Í þessum pistli verður fjallað um nornir, seiðkarla, miðla og skáldkonur og mikilvægi þeirra í nútíma þjóðfélagi. Vigdís Gríms segir sögu af reynslu sinni af hinu yfirnáttúrulega.

Snákar í draumi tákna oftast kaldlynda og ómerkilega kunningja og sérstaklega séu snákarnir eitraðir. Drepir þú snák muntu yfirstíga miklar hindranir. Að vera bitinn af snák er merki um áhyggjur sem hvíla þungt á þér. Vefji slanga sig utan um þig er það aðvörun um að einhver í kringum þig er ekki allur þar sem hann er séður.

Skandall í norsku hirðinni

Á leið heim úr vinnu um daginn heyrði ég fregnir af norsku konungsfjölskyldunni. Venjulega er ég fullkomlega áhugalaus um ástir og örlög hinna konungbornu - á meðan móðir mín og systurdóttir sátu límdar við skjáinn með hágæða, enskt te og engiferkökur og fylgdust klökkar með konunglegu brúðkaupi Harrys og Megan á síðasta ári þá er ég svo illa að mér í þessum fræðum að ég þurfti að fletta upp nöfnum þeirra beggja til upprifjunar. En í þetta skipti, í bílnum á heimleiðinni, þá lagði ég við hlustir. Svo virðist nefnilega sem allt sé komið í bál og brand í norsku konungsfjölskyldunni því Martha Louise prinsessa er búin að tilkynna að hún hafi fundið sáufélaga sinn. Sálufélaginn er ekki af heldri ættum í Noregi, vatnsgreiddur prúður piltur í róðrafélagi með gott peningavit og æskuminningar um Ave Maríurnar sem hann söng með drengjakór. Þessi maður kemur frá Kaliforníu og starfar sem seiðkarl. Prinsessan og seiðkarlinn náðu saman.

Þetta er ekki hliðarsaga úr Harry Potter-bókunum eða vampírubókinni Ljósaskipti. Þetta var fregn sem mér barst til eyrna á leiðinni í apótek, með rúðuþurrkur á blasti, á vætusömum degi að rúnta um Skeifuna. Engir seiðkarlar sjáanlegir, aðeins veðurbarið fólk með belgtroðna Hagkaupspoka og uppgjafarsvip.

Mynd með færslu
 Mynd: bmairlot - Flickr
Það boðar ekki gott að dreyma snáka

Nornin í New York

Í kjölfarið á þessum óvæntu fréttum frá Noregi ákvað ég að rifja upp með sjálfri mín eigin kynni við, ekki huggulegan seiðkarl eins og norska prinsessan, en eins konar norn. Í síðasta pistil fór ég með ykkur í ferðalag til Aþenu að heilsa upp á villikettina þar, núna færum við okkur burt úr niðurrigndri pulslyktandi Skeifunni og til New York. Nánar til tekið East village í New York. Við erum í einni af hliðargötunum, það er kvöldsól að hausti og íkornar í trjánum. Við erum nýkomin út af kokteilabarnum Dorian Gray.

Á árum áður var þetta hverfi krökkt af fátæku listafólki. Þetta er sama hverfi og söngleikurinn Rent var skrifaður um, um fólk með stóra drauma sem lifði fyrir nóttina. Þau sköpuðu, myndlist, tónlist og ljóðlist en gátu ekki borgað leiguna í húsum sínum sem voru að hruni komin. Þar voru vafasamir kjallarabarir, hóruhús, brostnir draumar, eymd og sjúkdómar. Núna er þetta eitt af fínni hverfum borgarinnar. Dulúðin sem fylgir minningum liðinna tíma svífur samt enn yfir sindrandi húsþökum því inn á milli leikhúsa, kokteilabara og merkjavöruverslanna má finna víða í East Village svolítið sem virðist enn í takt við skuggalegheit liðinna tíma.

Á öðru hverju götuhorni má nefnilega finna glugga, gjörólíkan hinum búðargluggunum, þar sem þung gluggatjöld eru gjarnan dregin fyrir. Fyrir framan þau hangir blikkandi neonskilti sem auglýsir tarotspá og lófalestur á góðum prís. Hér inni opnast framtíðin ef þú bara þorir að stíga fæti inn. Í East Village búa nefnilega nornirnar og seiðkonurnar. Og ég átti fund við eina slíka.

Tarotlestur á galdraslóðum

Ég hafði drukkið nokkra kokteila, var stödd í þessari borg sem býr yfir óvæntustu leyndardómum hvar sem maður bregður niður fæti. Ég ákvað að svala forvitninni og banka á eina hurðina sem auglýsti tarot og árulestur.

Hefði þessi kona sem tók á móti mér verið uppi á nornaöld þegar brennurnar tíðkuðust hefði hún þurft að fela sína náðargáfu. Ekki bara gat hún sagt mér allt um sjálfa mig - það var sem hún starði inn í sálina á mér. Hún sagði mér frá systrum mínum þremur, frá bókinni sem ég var að skrifa og kom út seinna sama ár. Hún sagði mér hvað ég væri að gera í borginni. Hún grét þegar hún talaði um veikindi móður minnar með nákvæmum tímasetningum um hvenær hún veiktist og hvenær henni batnaði. Ég sat og gapti.

Áður en ég kvaddi hana reyndi hún auðvitað að selja mér kristalla, bauð mér árumyndatöku og ilmjurtir sem hrekja burt illa anda. Þegar ég afþakkaði allt sagði hún: „Ég veit að við munum hittast aftur.“ Og svo bætti hún við því sem sló mig mest af öllu. Hún sagði: „Mundu þegar þú ferð að sakna mín að þig dreymdi snáka í nótt.“ Mig hafði einmitt dreymt snáka þá nóttina.

Nornir í smáauglýsingum

Ég hef lítið kynnt mér stöðu himintunglanna eða áhrif þeirra á skapgerð mína eða líf, ég veit ekki mikið um stjörnuspeki eða hvaða litur er ákjósanlegastur á heilbrigðri áru. En ég hef haft augun opin fyrir því göldrótta í kringum mig, lesið stjörnuspána mína og tekið mark á henni ef hún segir mér að ég sé á réttri leið í lífinu eða mín bíði lottóvinningur í náinni framtíð. Og stundum þegar mig dreymir fletti ég því upp hvaða skilaboð undirmeðvitundinni voru færð í myndlíkingum að handan þá nóttina. Kannski er þetta bara viðleitni til að geta talið sjálfri mér trú um að það sé í raun eitthvað meira í þessum heimi en rigning í Skeifunni, ímynd hinnar fullkomnu tómhyggju.

Eftir að hafa frétt af seiðkarli norsku prinsessunnar fór ég að hugsa um seiðkonur og seiðkarla sem sögur hafa farið af á Íslandi. Takið eftir að þó húsnæðis og atvinnuauglýsingar hafi að mestu horfið af síðum smáauglýsinga Fréttablaðsins má enn finna þar símanúmer hjá fólki sem sem getur fært ykkur svör úr botni kaffibolla, lesið úr lófa ykkar, fært ykkur tarotspá símleiðis.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Vigdísi Grímsdóttur hefur upplifað lækningamátt skyggnigáfunnar

Seiðkonan sem bjargaði Vigdísi Grímsdóttur

Ég man eftir sögum af Láru miðli, sem þó varð uppvís að svikum og dæmd í fangelsi fyrir en átti sér enn fylgjendur sem fullyrtu að hún hefði verið í beinu sambandi við framliðna. Jósefína Eyjólfsdóttir frá Nauthól sem var fyrirmynd Karólínu gömlu í Thule-kampinum var rammgöldrótt. Sigga Klingenberg sefar reglulega stressaða viðskiptavini í kauphlaupi í Smáralindinni með loforðum um sjóðheit stefnumót og óvænta velgengni í vinnunni. Og ég mundi í upprifjun minni um göldrótta Íslendinga að ein kona sem ég hef sjálf kynnst hefur alltaf getað lesið mig á sama hátt og spákonan í New York. Rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir. Ég sendi henni því línu.

Ég spurði Vigdísi þegar ég var að undirbúa þennan pistil um reynslu hennar af hinu yfirnáttúrulega. Hún sagði mér sögu af annarri næmri konu, henni Bíbí Ólafsdóttur vinkonu sinni, miðli, sem Vigdís skrifaði ævisögu um. Vigdís sagðist hafa upplifað með henni vitnisburð um raunverulega skyggnigáfu, þegar hún var sjálf á leið til nornaborgarinnar New York. Vigdís sagði:

Einu sinni var Bíbí stödd í stiganum hérna heima hjá mér þegar hún sagðist sjá hann pabba minn. Nú jæja, hugsaði ég, hann bara mættur svona löngu horfinn. Hvað vill hann, sagði ég. Vara þig við flugferðum, sagði hún. Jæja, sagði ég sem einmitt var á leið ti N.Y. að heimsækja son minn sem ég og gerði. Á heimleiðinni veiktist ég svo hastarlega að mér var ekki hugað líf lengi vel. Lifði þó af og þakka það helst Bíbí sem vakti yfir mér dag og nótt, gaf mér allt það rafmagn og orku sem í henni bjó og dró mig að lokum frá því öngstræti sem dauðinn er fyrir manneskju sem er alls ekki tilbúin að deyja - og þá sá ég það sem til þurfti til að óttast aldrei dauðann. Þetta er bara fáeitt af mörgu sem ég gæti nefnt, en Bíbí er öflug kona með kraft á við Gullfoss, sem betur fer hefur hún aldrei verið virkjuð, enda skömm að reyna slíkt við náttúruöfl.

Mig langar að kveðja í dag og bjóða ykkur velkomin að stíga með mér inn í heim norna, seiðkarla og allsráðandi himintungla. Og þó ég geti ekki spáð fyrir neinum, séð árur þeirra eða séð framtíð ljúkast upp í botni kaffibolla þá get ég ráðlagt ykkur að vera ekki jafn fljót að á ykkur og norska konungsfjölskyldan Það borgar sig nefnilega að hleypa nornum og seiðkörlum inn í líf sitt eins og sagan af Vigdísi og Bíbí sannar. Og ég get fullvissað ykkur að eins og ég lærði af norn einni í East Village í New York, hafið varann á, dreymi ykkur snáka í nótt.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Að staldra við og skynja

Pistlar

Borg sem er stjórnað af köttum

Umhverfismál

Jesús býr í Háteigskirkju, mamma