Prestar græða milljónir

Mynd með færslu
 Mynd:

Prestar græða milljónir

21.05.2014 - 19:58
Prestar sem nýta hlunnindi kirkjujarða fá samtals tugi milljóna króna árlega í arð af þeim. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, telur þetta fyrirkomulag ekki sanngjarnt, einkum þegar haft er í huga að margar sóknir á landsbyggðinni eigi i fjárhagserfiðleikum.

Prestar í stórum prestaköllum í þéttbýli geta að sama skapi hækkað tekjur sínar verulega með hinum ýmsu aukaverkum sem greitt er fyrir sérstaklega.

Þegar allar gerðir hlunninda prestastéttarinnar eru teknar saman er ljóst að verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir marga að halda í óbreytt ástand. Biskup hefur skipað svokallaðan ráðgjafarhóp sem á að endurskoða kerfið.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld, þar sem fjallað var um fjárhagsmálefni Þjóðkirkjunnar. Á meðal þess sem fram kom var að tilteknir prestar hafa umtalsverðar tekjur af ýmsum hlunnindum á kirkjujörðum. Í Kirkjuráði situr prestur sem sjálfur hefur miklar tekjur af hlunnindum kirkjujarðar, auk þess sem sonur hans er einnig prestur á jörð þar sem arður af hlunnindum skiptir milljónum. Fleiri prestar njóta sambærilegra hlunninda.  

Fjárhagsleg staða kirkjunnar slæm

Í viðtali Kastljóss við Agnesi M. Sigurðardóttur kom fram að fjárhagsleg staða Þjóðkirkjunnar væri ekki góð. Kirkjan hafi úr minna fjármagni að spila eftir efnahagshrun, eins og aðrar stofnanir landsins.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2014 fær Þjóðkirkjan tæpa fjóra milljarða kr. til rekstursins en inni í þeirri upphæð eru sóknargjöldin sem innheimt eru í formi skatta. Allir prestar Þjóðkirkjunnar eru opinberir embættismenn á launum frá ríkinu. Ríkið greiðir einnig laun starfsfólks Biskupsstofu. Samtals nema þessar launagreiðslur tæpum einum og hálfum milljarði kr. á þessu ári.

Þessi greiðsla ríkisins er tilkomin vegna kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997 en það samkomulag má rekja aftur til ársins 1907 þegar ríkið tók yfir stærstan hluta af jörðum kirkjunnar. Þjóðkirkjan álítur að ríkið sé að greiða arð af þessum eignum sem það fékk frá kirkjunni fyrir rúmum hundrað árum. Fasteignir Þjóðkirkjunnar heyra einnig undir Kirkjuráð, sem stjórnar Kirkjumálasjóði, skráðum eiganda fasteignanna. Kirkjumálasjóður á 62 prestsetur víðsvegar um landið. Sumum þeirra fylgir land kirkjunnar og hlunnindi. 

Haldsbréfum hugsanlega sagt upp

Þegar prestur tekur við prestssetri undirritar hann svokallað haldsbréf, sem er ákveðið form af leigusamningi. Í haldsbréfinu koma fram upplýsingar um prestsetrið, húseignir, jarðareignir, ítök og hlunnindi. Í haldsbréfinu er einnig tilgreint húsaleigugjald prestsins sem nemur 3,3% af fasteignamati á ári og er bundið vísitölu.

Leigan sem presturinn greiðir skal aldrei vera lægri en 43.000 kr. á mánuði og aldrei hærri en 83.000 kr. Í viðtali við Kastljós sagið biskup að til greina kæmi að segja haldsbréfunum upp og semja á ný við presta. Biskup talaði um að prestum beri að sinna kirkjujörðunum, gæta hagsmuna kirkjunnar þar og að því fylgi einhver kostnaður.

Þá sagðist biskup vel skilja gremju sóknarbarna sem horfi upp á presta sitja á hlunnindajörðum, í sóknum sem eigi í fjárhagsvanda. Hún vilji þess vegna skoða málin mjög ítarlega. Biskup sagði Þjóðkirkjuna ekki búa yfir öllum upplýsingum um hlunnindi presta, það er upplýsingar um þær upphæðir sem fari í vasa prestanna. 

Spurð hvort þá megi ekki flokka eitthvað af þessari atvinnunýtingu sem svarta atvinnustarfsemi, sagði biskup: „Ég vil nú ekki halda því fram að prestar séu að svindla á kerfinu. Vonandi er það bara þannig að þeir gefa þetta allt upp til skatts, eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Ég get ekki ímyndað mér annað. Ég hef ekki neitt í höndum um það að svo sé ekki.“ Spurð hvort hún vilji að það verði skoðað sagði biskup: „Varðandi skattalögin og reglurnar hér í landinu þá eru önnur yfirvöld sem skoða það.“

Milljónatekjur feðga

Kirkjuráð er fimm manna ráð sem sér um að framfylgja reglum og stefnu Kirkjuþings. Auk biskups, sem er formaður, sitja þar tveir prestar og tveir leikmenn.

Kirkjuráð hefur mikil völd og stjórnar í raun öllum rekstri Þjóðkirkjunnar, þar á meðal öllum fasteignum hennar, sem eru margar og verðmætar. Gunnlaugur Stefánsson, prestur í Heydölum, hefur setið í Kirkjuráði frá árinu 1987. Hann varð þjóðþekktur þegar hann var kosinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn árið 1991 en hann gegndi bæði preststarfinu og þingmennskunni til 1995. Heydalir eru mikil hlunnindajörð en mestu hlunnindin liggja í æðarvarpi í Breiðdalseyjum.

Samkvæmt fasteignamati er æðarvarpið metið á rúmar 10 milljónir króna. Kirkjujörðin á einnig rúmlega 16% hlut í Breiðdalsá, sem í fasteignamati er metinn á tæpar fjórar milljónir kr. Til að halda utan um rekstur af dúntekju og laxveiðihlunnindum á kirkjujörðinni stofnaði Gunnlaugur einkahlutafélagið Háhólma.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 námu tekjur af æðardúni og laxveiði rúmum 2,3 milljónum króna. Hagnaðurinn það ár var um 200.000 kr. Frá árinu 2009 hefur fyrirtæki Gunnlaugs hagnast um 1,5 milljón kr. Hreindýraarður sem tilheyrir Heydölum rennur beint til prestsins en frá árinu 2005 hefur Gunnlaugur fengið greiddar samtals tæpar 900 þúsund kr. úr þeim potti.

Gunnlaugur sagði í samtali við Kastljós að allar tekjur sem hann hafi af jörðinni fari til viðhalds og varðveislu hennar. Þá kom fram í umfjöllun Kastljóss að Stefán Már Gunnlaugsson, sonur Gunnlaugs, er prestur að Hofi í Vopnafirði en á þeirri kirkjujörð eru einnig mikil hlunnindi vegna eignarhluta kirkjunnar í Hofsá og Sunnudalsá, sem í fasteignamati eru metnir á tæpar 75 milljónir kr.

Stefán Már fær helming af öllum arði sem til verður af þessum hlunnindum kirkjunnar og hafa samtals um 10 milljónir kr. á síðustu tveimur árum runnið í vasa prestsins. Stefán nýtur líka arðs af hreindýrum en frá árinu 2005 hefur hann fengið samtals um eina milljón kr. Þeir feðgar, Stefán og Gunnlaugur, eiga samlagsfélagið Hofsborg slf. og þeir eru báðir formenn veiðifélaga. Gunnlaugur er formaður veiðifélags Breiðdælinga og Stefán er formaður veiðifélags Hofsár. 

Sat beggja vegna borðs

Kastljós fjallaði einnig um jörðina Valþjófsstaði á Fljótsdalshéraði en þar hefur Lára G. Oddsdóttir verið prestur frá 1998. Valþjófsstaðir hafa löngum verið taldir ein mesta kostajörð Austfjarða og hafa hlunnindi Láru verið umtalsverð frá byrjun. Árið 2004 fékk hún rúman helming af 15 milljón króna bótum frá Landsvirkjun, vegna rasks á kirkjujörðinni.

Lára sat beggja vegna borðsins á þessum tíma því hún sat í stjórn Prestsetrasjóðs sem þá fór með öll fjárhagsmálefni prestsetranna. Arður Láru af kirkjujörðinni er enn meiri. Frá árinu 2005 hefur Lára fengið allan arðinn af hreindýraveiðum, alls tæpar 11 milljónir kr., í eigin vasa. Jörðinni fylgir sauðfjárkvóti sem presturinn nýtir endurgjaldslaust. Lára Oddsdóttir sagði í samtali við Kastljós að þar sem hún væri ábúandi jarðarinnar fengi hún arðinn af kirkjujörðinni samkvæmt ábúðarlögum. 

Fleiri prestar njóta hlunninda

Fleiri prestar njóta fjárhagslegra hlunninda af gjöfulum prestsetursjörðum í eigu Þjóðkirkjunnar, samkvæmt umfjöllun Kastljóss: Á Reynivöllum í Kjós hefur Gunnar Kristjánsson setið sem prestur í 36 ár. Kirkjujörðin á hlut í Laxá í Kjós sem í fasteignamati er metinn á 22 milljónir kr. Gunnar hefur fengið um 2 milljónir króna í arð á ári af hlut kirkjunnar í ánni. 

Á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd hefur Kristinn Jens Sigurþórsson setið sem prestur frá árinu 1996. Prestsetrið á rúmlega 5% hlut í Laxá í Leirársveit, sem metinn er á 17,5 milljón kr. samkvæmt fasteignamati.

Arður af þessum laxveiðihlunnindum kirkjunnar er um 1,5 milljón kr. á ári. Presturinn í Saurbæ nýtur einnig arðs af lóðarleigusamningum og fær um 2,5 milljón króna á ári út úr þeim. Samtals fær Kristinn Jens því um 4 milljónir kr. á ári í arð í eigin vasa af hlunnindum kirkjujarðarinnar og þá er ekki meðtalinn sauðfjárkvóti í eigu kirkjunnar sem presturinn nýtir endurgjaldslaust. 

Í Kastljósi kom fram að Kristinn Jens hefur sótt rétt sinn til arðs af kirkjujörðinni nokkuð fast en árið 2005 stefndi Kristinn Prestsetrasjóði vegna bóta sem sjóðurinn hafði fengið frá Landsneti vegna lagningar rafmagnslínu í landi Saurbæjar. Landsnet greiddi prestsetrasjóði rúmar 9 milljónir kr. og vildi Kristinn Jens fá allar bæturnar, með þeim rökum að rafmagnslínan hefði verið lögð á þeim hluta kirkjujarðarinnar þar sem hann ætlaði að byggja upp frístundabyggð.

Vísaði Kristinn Jens í fordæmið frá Valþjófsstöðum, þar sem Lára Oddsdóttir fékk helming af bótum Landsvirkjunar. Prestsetrasjóður var sýknaður af kröfum prestsins í Saurbæ. 

Setti upp gistiaðstöðu í óleyfi

Á Breiðabólsstað í Fljótshlíð hefur Önundur Björnsson verið prestur frá árinu 1998. Önundur hefur komið upp gistiaðstöðu í útihúsum á prestsetrinu, sem hann gerði í óleyfi - en framkvæmdirnar voru að hluta til kostaðar af honum sjálfum og Prestsetrasjóði, fyrirrennara Kirkjumálasjóðs.

Allar tekjur af gistiaðstöðunni renna í vasa Önundar og meðal annars leigutekjur upp á rúma eina milljón króna frá veiðifélagi Eystri Rangár. Breiðabólsstað fylgir sauðfjárkvóti í eigu kirkjunnar sem Önundur nýtir, en samtals á Þjóðkirkjan sauðfjárkvóta sem metinn er á um 55 milljónir króna.

Á sauðfjárkvóta upp á samtals 55 milljónir

Í umfjöllun Kastljóss kom jafnframt fram að kirkjan á sauðfjárkvóta upp á samtals 55 milljónir kr. Kirkjan hefur þó engar tekjur af þessum kvóta, sem prestarnir nýta og fá arðinn af. Árið 2012 greiddi ríkið tæpar 11 milljónir í beingreiðslur til prestanna vegna sauðfjárkvóta Þjóðkirkjunnar sem prestar á prestsetrum nýta.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattsjóri sagði í samtali við Kastljós að prestar og tekjur þeirra sæti eftirliti skattyfirvalda eins og annarra þjóðfélagshópa. Ef tilefni væri til þá yrðu mál prestastéttarinnar tekin til frekari athugunar - hvort sem það væri eftir ábendingar greiningardeildar ríkisskattstjóra eða með öðrum hætti.