Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Prayut í sterkri stöðu

25.03.2019 - 08:52
Erlent · Asía · Taíland
Mynd með færslu
Prayut á kjörstað í gær. Mynd:
Flokkur hliðhollur herforingjastjórninni í Taílandi hefur fengið flest atkvæði þegar búið er að telja meira en 90 prósent atkvæða úr þingkosningunum í landinu í gær. Útlit er fyrir að Prayut Chan-O-Cha, forsætisráðherra herforingjastjórnarinnar, verði áfram við völd. 

Að sögn fréttastofunnar AFP hafa margir litið á kosningarnar sem eins konar þjóðaratkvæðagreiðslu um herforingjastjórnina sem verið hefur við völd í Taílandi síðan 2014, þegar herinn hrakti Yingluck Shinawatra forsætisráðherra frá völdum.

Kosið hafi verið eftir nýju reglum sem herforingjastjórnin hafi samið, en samkvæmt þeim á efri deild þingsins skipuð af herforingjastjórninni í fyrsta skipti að taka þátt í kjöri forsætisráðherra á þingi.

Búist hafði verið við að flokkar hliðhollir þeim Yingluck og Thaksin Shinawatra fengju flest aðkvæði, en það kom mörgum á óvart að Phalang Pracharat, flokkur Prayuts forsætisráðherra herforingjastjórnarinnar, var efstur þegar búið var að telja um 93 prósent atkvæða.

Var flokkurinn með um hálfri milljón fleiri atkvæði en Pheu Thai, flokkur Thaksins og verði það niðurstaðan verður hann í lykilstöðu þegar kemur að stjórnarmyndun.

Að sögn AFP vekur það athygli hver mörg atkvæði hafa verið úrskurðuð ógild eða 1,9 milljónir atkvæða. Fimmtíu og tvær milljónir manna voru á kjörskrá, en kjörsókn var um 66 prósent.