Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Póstmaður sem er illa við bréfalúgur

17.12.2018 - 15:10
Ég opna nú ekki póstinn og les fyrir fólk óbeðinn, segir starfsmaður Póstsins í Dýrafirði. Honum leiðast bréfalúgur og fer stundum með sendingar alla leið inn á eldhúsborð.

Dreifir líklega 90-100 pökkum á dag fyrir jólin

Sigþór hefur starfað við að bera út póst í Dýrafirði í tólf ár: „Ég keyri semsagt pökkum alla daga en bréfapósturinn fer annað hvern dag. Bara hérna fyrir Dýrafjörð þá er ég með um 40 pakka í dag. Það er svona meðaltal síðan í byrjun desember. Síðasta vikan fyrir jól á eftir að toppa þetta. Það kæmi mér ekkert á óvart ef ég fer með um 90-100 pakka síðustu dagana fyrir jól,“ segir Sigþór.

Bögglaberar frekar en bréfberar

Á síðustu árum hefur starf Sigþórs breyst mikið enda bréfpóstur dregist saman um 36 prósent á síðustu fimm árum en pakkasendingum innanlands fjölgað um 47 prósent, til landsins um 358 prósent. Á sama tíma hefur pósthúsum fækkað. „Nú er pósthúsið hér í Dýrafirði bara pósthús á hjólum. Nú fer fólk í Dýrafirði ekkert lengur í pósthús, nú fer pósturinn heim að dyrum hjá þeim,“ segir Sigþór.

Fer jafnvel með póstinn inn á eldhúsborð

Og Sigþór fer jafnvel inn fyrir dyr. „Mér leiðast bréfalúgur. En ef það er opið hjá fólki og það er heima. Og það eru undantekningar að ég fer inn á eldhúsborð.“ Þau Elínborg og Bergsveinn, ábúendur á Mýrum í Dýrafirði, taka því vel þegar Sigþór gerir sig heimakominn. „Já, já, það er bara betra,“ segir Elínborg. „Þá þarf maður ekki að fara í kassann,“ segir Bergsveinn.

Opnar ekki póstinn og les óbeðinn

„Gárungarnir segja að það sé ekki nóg með það að fari með póstinn inn á eldhúsborð heldur opni ég póstinn líka og lesi fyrir þau. En ég geri það nú ekki óbeðinn,“ segir Sigþór. 

Jólakortum fækkar

Það verða þó líklega ekki jólakort sem að Sigþór les fyrir viðtakendur enda fækkar þeim eins og öðrum bréfum. „Það er svona mín tilfinning að jólakortavertíðin verði ekkert stór. Því nú er þetta allt orðið rafrænt. Eða bara facebook, jólakveðjurnar fara á facebook.“