Pósthúsinu í Pósthússtræti lokað

23.07.2018 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ríflega einnar og hálfrar aldar sögu pósthússtarfsemi í Pósthússtræti í Reykjavík lýkur í nóvember þegar pósthúsinu þar verður lokað. Starfsemi þess, og pósthússins á Eiðistorgi, verður flutt í Bændahöllina. Sagnfræðingur sem rannsakað hefur sögu Reykjavíkur segir synd að ekki verði lengur pósthús á þessum stað.

Pósthús í Pósthússtræti í 150 ár

Pósthúsið hefur verið í sama húsi í rúmlega eina öld, frá því á árum fyrri heimsstyrjaldar. Pósthús hafa þó verið enn lengur á þessum slóðum.

„Pósthússtræti er búið að vera pósthúsgata frá upphafi,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur. Pósthússtræti heitir eftir pósthúsinu sem rekið var í timburhúsi þar sem nú er Hótel borg. Þar var pósthús á seinni hluta 19. aldar, frá 1872, og þar til núverandi pósthús var tekið í notkun. Gamla pósthúsið var síðar flutt í Skerjafjörð og þaðan að Brúnavegi og byggt við það. Fyrst vék húsið fyrir Hótel Borg og svo fyrir Reykjavíkurflugvelli.

„Það er búið að vera pósthús við þessa götu í 150 ár eða lengur,“ segir Guðjón. Hann segir að pósthúsið í Pósthússtræti hafi mjög sterkar sögulegar tengingar. „Það er svolítil synd að það skuli ekki vera lengur pósthús í hinum eina sanna miðbæ Reykjavíkur,“ segir Guðjón og bætir við: „Mér finnst dálítil synd að þetta gamla kennimerki Reykjavíkur skuli fara. Svo er þetta auðvitað pósthúsið – rautt og flott.“

Flytja í hentugra húsnæði

Í svari frá Póstinum við fyrirspurn fréttastofu segir að lengi hafi legið ljóst fyrir að núverandi húsnæði sé ekki hentugt fyrir pósthús þar sem aðgengi sé með verra móti. Þetta hafi bæði bitnað á viðskiptavinum og starfsmönnum póstsins. Þannig hafi oft reynst erfitt að koma sendingum að húsnæðinu og bílastæðum fækkað til muna. Því hafi lengi verið leitað að hentugu húsnæði í eða við miðbæ Reykjavíkur. Nýja húsnæðið henti vel til starfseminnar og þar sé nóg af bílastæðum auk þess sem aðbúnaður starfsmanna verði betri.

Þá segir í svari Póstsins að breytingin sé liður í að mæta breyttum þörfum viðskiptavina. Áfram verði þó haldið úti öflugu neti pósthúsa og heimkeyrslu auk þess sem póstboxum verði fjölgað. „Auðvitað er erfitt að sjá eftir Pósthússtræti, sérstaklega í ljósi sögunnar, en því miður var ekkert annað í stöðunni og löngu orðið ljóst að Pósturinn þyrfti að flytja í betra húsnæði,“ segir í svari Póstsins við fyrirspurn fréttastofu.

Óljóst hvað verður um húsið

Pósthúsið í Pósthússtræti var löngum aðalmiðstöð póstdreifingar. Hlutverk þess hefur farið minnkandi og síðustu ár hefur það verið rekið eins og önnur pósthús eftir að flokkun og dreifing fluttist annað. Pósturinn og forverar hans áttu húsið en það var selt árið 2003. Síðan þá hefur Pósturinn verið leigjandi í húsinu. Pósturinn var áður með allt húsið til umráða en Hitt húsið hefur um árabil haft stóran hluta hússins til umráða.

Ekki er ljóst hvað verður um húsnæðið sem Pósturinn hefur haft til umráða, segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita sem eiga húsnæðið.

Nú er ljóst að pósthúsin á Eiðistorgi og í Pósthússtræti hverfa. Því má segja að Pósthússtræti bætist í hóp gatna sem ekki bera lengur nafn með rentu, svo sem Bankastrætis, Spítalastígs og Lækjargötu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi