Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pössuðu að láta ekki undan þrýstingi í hruninu

23.09.2018 - 21:50
Ólafur Þór Hauksson, fyrrverandi sérstakur saksóknari, segir starfsmenn embættisins hafa sammælst um að láta ekki undan utanaðkomandi þrýstingi við rannsókn á bankahruninu. Ákært var í 25 málum, enn á eftir að dæma í sex þeirra. 

Embætti Sérstaks saksóknara var komið á fót í janúar 2009. Hlutverk þess var að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og í kjölfar atburða sem leiddu til bankahrunsins. „Ég neita því ekki að það voru langir vinnudagar. Það sem er nú kannski mjög eftirminnilegt í þessu var hversu hópurinn var til í að taka þennan langa vinnudag með okkur. Við byrjuðum náttúrulega frekar rólega, við vorum bara fimm sem byrjuðum og það var alveg óvíst um inntakið á þessu verkefni það er að segja við vissum ekki hvað þetta var í umfangi. Þegar við fórum aðeins að sjá betur inn í þetta þá var alveg ljóst að það þyrfti meira og mikið meira.“

Sex óuppgerð hrunmál

Embættið var lagt niður í árslok 2015 og embætti héraðssaksóknara tók við öllum útistandandi verkefnum. Til rannsóknar voru rúmlega 200 hrunmál. Enn eru sex slík mál óuppgerð fyrir dómstólum og eru nú til meðferðar hjá Landsrétti og héraðsdómi. Nokkur mál til viðbótar eru einnig í vinnslu sem tengjast uppgjöri og eftirmálum hrunsins.

„Langflest þessara hrun mála voru mjög umfangsmikil. Þau voru svolítið ný af nálinni sem þýddi að það var ekkert alveg vitað hvað dómstólarnir teldu nægjanlegt þannig það var þá farið þá leið að reyna að upplýsa allt og þau voru því mjög þung í meðförum að öllu leyti.“ segir Ólafur. 

„Þetta var bara að mörgu leyti algjörlega unique tímabil. Þetta var náttúrulega margt nýtt, við vorum að reyna að finna nýjar aðferðir á sama tíma og við vorum að vinna að rannsóknum þessara mála. Fólk ofkeyrði sig, það voru alls konar uppákomur.“

Aldrei lent í vinnu af þessu tagi

Ólafur segir að það hafi einnig komið á óvart að erlend dómafordæmi væru af skornum skammti. „Það verður að segjast alveg eins og er að við töldum að við myndum geta leitað meira í fordæmi erlendis og við vorum mjög mikið að skoða það sem erlendir dómstólar hefðu verið að gera vegna þess að ísland byggði jú löggjöf sína svolítið mikið á réttarbálkum frá Evrópu. Það kom í ljós að það var ekki og það var svolítið sérstakt þegar við áttuðum okkur á því að við værum að gera þetta á eigin spýtur.“

Ólafur segir að margt frá þessum tíma hafi verið sérstakt en húsleit sex starfsmanna embættisins ásamt 24 lögreglumönnum í Lúxemborg hafi verið afar eftirminnileg. 

Harkaleg samskipti og samfélagið reitt

Þá hafi einnig vakið athygli Ólafs hve harkalega var tekið til varna og hve erfið samskipti milli dómara og málflytjenda voru. „Jú við áttum alltaf von á því að það yrði mjög öflug vörn og það skal ekkert vera tekið frá mönnum að þeir eiga rétt á þeim vörnum sem þeim ber. En við vorum að sjá ýmislegt í réttarsögunni sem var alveg nýtt fyrir okkur. Það var mikil spenna og sú spenna var náttúrulega bæði í samskiptum manna í milli og eins dómara og málflytjenda því miður fór það þannig.“

Ástandið hafi á sama tíma verið erfitt í samfélaginu og fólk hafi verið reitt. „Það var eiginlega bundist heitstrengjum um það að við myndum vinna þetta allt saman eftir bókinni, eins og við hreinlega gætum. Og taka ekki afstöðu með einhvers konar sveiflum innan samfélagsins. Við töldum að við gætum ekki gefið eftir gagnvart einhverjum þrýstingi en hann var klárlega, menn vildu hafa áhrif á það sem við vorum að gera alveg klárlega.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV