Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Popúlismi af verstu sort“

22.09.2015 - 17:20
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kristín Pálsdóttir - RÚV
Bekkurinn er þéttsetinn í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem til stendur að draga tillögu meirihluta borgarstjórnar um fyrirhugað viðskiptabann gegn vörum frá Ísrael til baka. Borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna fóru hörðum orðum um Dag B. Eggertsson og Kjartan Magnússon kallaði eftir afsögn hans.

Við upphaf borgarstjórnarfundarins hófst umræða um hvort rétt væri að sameina tillögu minnihlutans og tillögu meirihlutans. Niðurstaðan varð sú að sameina þær en bæði greinargerð minnihlutans og greinargerð meirihlutans voru lagðar fram.

Vildi að greinargerð meirihlutans yrði dregin til baka

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna, krafðist þess að meirihlutinn drægi greinargerð sína til baka í ræðu sinni. „Þar eru fyrirheit um að halda áfram eftir sömu blindgötu,“ sagði Halldór. „Þess vegna á meirihlutinn að draga hana til baka.“

Halldór sagði samþykktina frá því í síðustu viku ekki í neinu samræmi við utanríkisstefnu Íslands. Meirihlutinn hefði gerst sekur um klækjastjórnmál og samstarfssáttmáli hans væri margbrotinn.

Halldór gerði einnig athugasemdir við hvernig undirbúningi tillögunnar hefði verið háttað. Ýmist hefði hún verið sögð kveðjugjöf til Bjarkar Vilhelmsdóttur eða að hún hefði verið í undirbúningi í heilt ár.

Hann sagði borgarstjórn þurfa að senda frá sér skýr skilaboð.  Hann benti einnig á að Björt framtíð hefði stutt tillöguna í Reykjavík en kosið gegn henni í Hafnarfirði.

Ekki heiftúðgar ræður á síðasta fundi

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, sagði í ræðu sinni meirihlutann hafa gengist við því að samþykktin hefði ekki verið nægjanlega vel undirbúinn. Hann sagði tillöguna verða samþykkta á þessum fundi og það væri skilaboð - greinargerðir væru ekki samþykktar.

Dagur sagði minnihlutann ekki heldur geta skorast undan ábyrgð sinni. Umræðurnar í síðustu viku hefðu ekki verið heiftúðagar heldur hefði minnihlutinn þvert á móti hrósað henni fyrir góðan hug.  Minnihlutinn hefði greitt atkvæði gegn henni á þeim forsendum að hún gagnaðist Palestínumönnum lítið sem ekkert. „Við vanmátum þetta verkefni.“

„Þess vegna á borgarstjóri að segja af sér“

Dagur rifjaði jafnframt upp að utanríkisráðuneytið og utanríkisráðherra hefðu sent inn umsögn um hvort merkja ætti vörur sérstaklega frá hernumdu svæðunum. Sú umsögn hefði verið jákvæð.  

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði þessa samþykkt hafa skaðað borgina og jafnvel landið allt. Hann sagði ömurlegt að fylgjast með borgarstjóranum í þessu máli - Dagur B. færi með rangt mál þegar hann segði að minnihlutinn hefði ekki haft upp nein varnaðarorð. „Þess vegna á borgarstjóri að lágmarka þetta tjón og þess vegna á borgarstjórinn að segja af sér.“

Sagði vörn borgarstjórans „furðulega“

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði vörn borgarstjórans furðulega. Áslaug María sagði málið orðið stórt á alþjóðavísu.

Það væru ekki nógu skýr skilaboð að samþykkja eingöngu tillöguna um að draga samþykktina til baka - greinargerð meirihlutans yrði að draga „afdráttarlaust til baka því málið er hætt að snúast um naflann á ykkur,“ sagði Áslaug og beindi orðum sínum til meirihlutans. 

Dagur ítrekaði að greinargerðir væru ekki samþykktar en Áslaug sagði hann ekki skilja hversu mikilvægt þetta mál væri. „Þetta er til skammar.“ Áhorfendur í sal hafa margir hverjir klappað fyrir ræðum hjá borgarfulltrúum minnihlutans.

Síðar í umræðunni sagði Áslaug að málflutningur meirihlutans væri „popúlismi af verstu sort“. Hún gagnrýndi þá Skúla Helgason, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem hafði lýst stuðningi við að tillagan yrði dregin til baka en einnig að hann væri þeirrar skoðunar að inntak hennar væri rétt.

Hversu mikið meira er hægt að vera á móti?

 Undir þetta tók Júlíus Vífill Ingvarsson - borgarstjóri virtist ekki vera meðvitaður um hversu alvarlegt mál þetta væri. Þessi ákvörðun hefði skaðað borgina og landsmenn alla. Júlíus sagði þetta minna á sjónvarpsþátt sem héti Borgarstjóravaktin. „Nema það væri allir sofandi.“

Júlíus Vífill vísaði einnig til bréfs frá Eggert Dagbjartssyni vegna hótelsins við Hörpu. Eggert viðrðaði áhyggjur sínar af ákvörðun Reykjavíkurborgar í bréfi til bankastjóra Arionbanka. Bankastjórinn áframsendi það bréf  með orðunum. „Ákaflega óheppilegt og hygg ég að sambærilegt berist okkur í bankanum úr öðrum áttum vegna annarra verkefna.“

Júlíus gerði einnig alvarlegar athugasemdir við málflutning borgarstjóra um að minnihlutinn hefði ekki verið á móti tillögunni. „Við greiddum atkvæði gegn þessari tillögu - hversu mikið meira er hægt að vera á móti.“

Júlíus sagði að næsta skref væri hjá umboðsmanni Alþingis - ef hann hefði ekki frumkvæði að málinu myndi hann óska eftir áliti hans. Og svo væri það skaðabótaskylda borgarinnar sem þyrfti að skoða. Júlíus sagði jafnframt að ímynd landsins hefði borið skaða og að á borgarstjóra hvíldi mikil ábyrgð.  Hann yrði að íhuga sína stöðu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV