Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pólverjar ósáttir við heimildamynd á Netflix

12.11.2019 - 11:06
Mynd með færslu
 Mynd: Netflix - Skjáskot
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, hefur sent Neflix bréf þar sem farið er fram á að heimildamyndinni The Devil Next Door verði breytt. Kvikmyndin fjallar um útrýmingarbúðir Nasista í seinni heimsstyrjöld og réttarhöld yfir Úkraínumanninum John Demjanjuk sem var fangavörður í útrýmingarbúðum Nasista.

Morawiecki telur kort sem birt eru í myndinni gefa ranga mynd af raunveruleikanum í stríðinu. Þar eru tvær útrýmingarbúðir Nasista teiknaðar á kortið innan núverandi landamæra Póllands, jafnvel þó Þjóðverjar hafi hernumið landið í stríðinu.

Frá þessu er greint á vef BBC og haft eftir fréttastofunni Reuters að Netflix hafi borist bréf forsætisráðherrans. Við bréfið er hengt kort af Evrópu síðla árs 1942 auk vitnisburðar Witold Pilecki sem var haldið í Auschwitz. 

Nasistar ráku útrýmingarbúðir víða í Póllandi í seinni heimsstyrjöldinni sem braust út með hernámi Póllands 1939. Aschwitz er eflaust þekktust útrýmingarbúðanna en þar voru minnst 1,1 milljón manns myrt þar til Sovétríkin hröktu Þjóðverja á brott í byrjun árs 1945.

Í bréfi Morawiecki til Reed Hastings, framkvæmdastjóra Netflix, er lögð áhersla á að minningin um sannleikann í stríðinu og helför gyðinga sé heiðruð og henni viðhaldið. Í því samhengi séu heimildaþættir á Netflix mjög villandi og til þess gerðir að endurskrifa söguna.

Stjórnvöld í Póllandi samþykktu ný lög í fyrra þar sem það var gert refsivert að halda því fram að Pólverjar hafi átt sök á stríðsglæpum í styrjöldinni. Lögin voru gagnrýnd á alþjóðavettvangi, ekki síst vegna þeirra glæpa sem pólskir vitorðsmenn Nasista frömdu í stríðinu. Gagnrýnin varð til þess að þriggja ára fangelsisviðurlög voru felld á brott úr lögunum.