Pólska búðin opnuð á ný

Mynd með færslu
 Mynd:

Pólska búðin opnuð á ný

12.04.2014 - 19:45
Með hjálp góðra vina tókst Piotr Jakubek að lagfæra Pólsku búðina Mini market, en verslunin var gjörónýt eftir íkveikju. Búðin var opnuð á ný í dag.

Fjöldi viðskiptavina lagði leið sína í verslunina þangað. Með hjálp vina og vandamanna hefur verslunareigandanum Piotr Jakubek tekist að koma búðinni í fyrra horf og gott betur.

„Mínir strákar, fjölskylda og vinir mínir, það tók okkur eitthvað fimm-sex vikur,“ segir Piotr sem gerði búðina aftur upp frá grunni. Verslunin gjöreyðilagðist í eldinum en kveikt var í um miðja nótt. Enn er ekki vitað hver var að verki. Piotr segist næstum hafa gefist upp eftir eldsvoðann, en fólk í hverfinu hafi skorað á hann að halda áfram.

„Ég var að spá í að bara hætta. Bara loka, fara að gera eitthvað annað eins og venjulegt fólk. Mæta í vinnu og koma klukkan 16 eða 17 heim. Það fólk sem þekkir mig sagði við mig: Heyrðu, ég þekki þig Pétur, þú kannt ekki að vinna bara átta tíma.“

Piotr hefur rekið verslunina í níu ár, og boðið upp á fjölbreyttan pólskan varning. Verslunin er vinsæl meðal Pólverja, sem vilja fá vörur sem þeir ólust upp við í heimalandinu, en Piotr segir marga Íslendinga meðal fastakúnna, sem komi ekki síður til að spjalla við kaupmanninn.

Hann segir súrar gúrkur það besta frá Póllandi sem selt er í versluninni.