Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Pólitískar hreinsanir hafnar í Tyrklandi

epa05428498 Turkish President Recep Tayyip Erdogan speaks to his supporters in front of his residence after a failed coup attempt, in Istanbul,  Turkey, 16 July 2016. Turkish Prime Minister Yildirim reportedly said that the Turkish military was involved
 Mynd: EPA
Umfangsmiklar hreinsanir eru hafnar í Tyrklandi í kjölfar misheppnaðrar valdaránstilraunar hluta Tyrklandshers í gærkvöldi og nótt. Hátt í þrjú þúsund hermenn hafa verið handteknir, þeirra á meðal fjöldi yfirmanna og minnst 30 hershöfðingjar. Hreinsanirnar ná þó ekki eingöngu til hermanna, sem taldir eru hafa verið flæktir í valdaránstilraunina. Tyrknesk stjórnvöld hafa notað tækifærið og vikið 2.745 dómurum og saksóknurum frá störfum og gefið út handtökuskipun á hendur fjölda hæstaréttardómara.

Þá hefur fimm dómurum og saksóknurum sem eiga sæti í stjórnlagadómstólnum, æðsta dómstól Tyrklands, verið vikið frá störfum. Tyrkneska ríkisfréttastofan Anadolu greinir frá þessu. Öllum er dómurunum gefið að sök að vera í vitorði með valdaránsklíku hersins og með tengsl við Fethulla Gülen, klerk og stjórnmálamann og fyrrum bandamann Erdogans Tyrklandsforseta, sem forsetinn fullyrðir að sé maðurinn á bak við valdaránstilraunina.

Erdogan: Uppreisnin „guðs gjöf“

Allir eiga dómararnir það einnig sameiginlegt að hafa verið stjórn Erdogans  og Binalis Yildirims forsætisráðherra þyrnir í augum undanfarin ár. Erdogan hefur ekki farið í launkofa með að hann fagnar í raun valdaránstilrauninni um leið og hann fordæmir hana. Í sjónvarpsávarpi sem hann flutti þegar hann lenti á Atatürk-flugvelli í Istanbúl í nótt sagði hann hreint út að uppreisnin og hópurinn sem að henni stæði væru sem guðs gjöf. Valdaránstilraunin, sagði Erdogan, gæfi honum „tækifæri til að hreinsa út úr hernum.“

Margir evrópskir stjórnmálaskýrendur eiga von á að hreinsanirnar séu rétt að byrja. Fleiri hermenn, dómarar, saksóknarar, fréttamenn, háskólaprófessorar og aðrir, sem vogað hafa sér að gagnrýna eða streitast á móti stefnu og aðgerðum stjórnvalda síðustu misseri megi eiga von á að verða atvinnulausir eða eitthvað þaðan af verra á næstu dögum og vikum. 

Yildirim forsætisráðherra hefur þegar viðrað það sjónarmið sitt, að valdaránstilraunin gefi mögulega tilefni til að taka upp dauðarefsingu í landinu á nýjan leik. 

Angela Merkel Þýskalandskanslari fordæmdi tilræðið í dag en hvatti tyrknesk stjórnvöld um leið til þess að fylgja lögum og sjá til þess að réttað verði yfir tilræðismönnunum. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tók í sama streng og sagði mikilvægt að þverpólitísk samstaða myndist á tyrkneska þinginu um hvernig beri að rétta yfir þeim sem gerast sekir um landráð. Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, fordæmir einnig valdaránið en manar tyrknesk stjórnvöld jafnframt til að nota ekki tækifærið til að vega að lýðræði, mannréttindum, tjáningarfrelsi, og grunnstoðum réttarríkisins. 

Fréttin hefur verið uppfærð.