Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Pólitísk ábyrgð að láta aðstoðarmann fara

16.08.2014 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Hanna Birna Kristjánsdóttir hafnar því að hún hefði átt að víkja sem innanríksiráðherra eftir að aðstoðarmaður hennar var ákærður í lekamálinu.

„Það er auðvitað alltaf á endanum pólitískt mat og mitt var það sem ég gerði í gær, sem eru viðbrögð við því að aðstoðarmaður minn er ákærður og það er auðvitað alvarlegt og þess vegna þarf að bregðast við því með alvarlegum og afgerandi hætti og ég gerði það í gær með því að veita honum lausn frá störfum og síðan að ákveðin verkefni sem tengjast þessum málum í ráðuneytinu færist yfir til annars ráðherra.“

-Þú hefur verið gagnrýnd fyrir að vera ekki löngu búin að því. Hver eru þín svör?
„Við getum auðvitað horft til baka og velt því fyrir okkur hvort það hefði verið rétt að bregðast öðruvísi við. Ég hef áður sagt að ég telji málið pólitískt ljótan leik að mörgu leyti og ég sá það ekki fyrir að málið myndi þróast með þessum hætti. Ég sá ekki hversu mikið pólitískt moldvirði myndi skapast í kringum það, en ég sagði líka að á meðan ég hefði engar forsendur til að telja að einhver hefði framið einhvern glæp, þá myndi ég ekki bregðast við með því að láta fólk fara, fyrr en málið væri lengra gengið. Þannig að ég hef verið samkvæm sjálfu mér í því, en við getum auðvitað í þessu máli eins og svo mörgum öðrum horft til baka og dregið að því lærdóm. Ég mun gera það og hvet aðra til að gera það líka.“

-Ertu enn þeirrar skoðunar að málið sé ljótur pólitískur leikur?
„Sannarlega. Ég er ekki að fella neina dóma um ákæruvaldið eða neina af þessum formlegu þáttum en ég tel að málið hafi ekki fengið frið og við höfum öll séð það. Almenningur hefur séð það undanfarna mánuði hversu mikil umfjöllun hefur verið um málið, hversu mikil ósannindi hafa verið um málið á alla enda og kanta. Stöðugt verið að tengja mig því með einhverjum hætti sem flestir sjá að getur ekki verið sanngjarnt. Þannig að já að því leyti hefur þetta verið ljótur pólitískur leikur.“  

-Það hefur verið bent á þú sem ráðherra berir ábyrgð á pólitískum aðstoðarmanni þínum. Er það nógu langt gengið að setja hann frá en sitja áfram sem ráðherra?
„Ég ber pólitíska ábyrgð og þess vegna lét ég aðstoðarmanninn fara. Það eru viðbrögð við því og viðbrögð við því sem felast í því að færa verkefni frá mér, síðan er það auðvitað pólitískt mat hvernig er tekið á því. Það hefur enginn verið sakfelldur í málinu.“