Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Play: Stefna á að miðasala hefjist í janúar

23.12.2019 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: Play
Undirbúningur við stofnun flugfélagsins Play er á lokametrunum, segir María Margrét Jóhannsdóttir, upplýsingafulltrúi félagsubs. Stefnt er á að miðasala hefjist í janúar að fjármögnun lokinni.

Fjármögnun á lokametrunum

Upphaflega var stefnt á að miðasala hæfist fyrir lok nóvember. Í tilkynningu frá félaginu í lok nóvember var tilkynnt að miðasölu yrði frestað og sagt að hjá nýju fyrirtæki geti hlutirnir stundum tekið lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir. Vonir stæðu til að miðasala hæfist fyrir áramót. 

María Margrét segir að fjármögnun félagsins sé nú á lokametrunum og gangi vel. Ekki verði flogið fyrr en félagið hafi verið fjármagnað að fullu. Stefnt sé á að miðasala hefjist í janúar.

„Þetta tekur bara smá tíma eins og eðlilegt er með svona start-up fyrirtæki. Það er að ýmsu að huga,“ segir María Margrét. Ferlið hafi gengið hægar en forsvarsmenn höfðu vonast til. „Þetta hefur verið flóknara ferli en við áttum von á en gengur samt sem áður mjög vel.“

Ágætis gangur í mannauðsmálum

Strax og flugfélagið var kynnt til leiks auglýsti það eftir starfsfólki. Félaginu hafa borist um fjögur þúsund umsóknir. María Margrét segir að mönnun flugfélagsins sé í ferli og gangi vel. Umsækjendur hafi verið boðaðir í viðtöl og flugmenn sendir í þjálfun. 

Ágætis gangur sé í mannauðsmálum. „Við verðum því tilbúin þegar allt smellur saman.“ Reiknað sé með að um tvö til þrjú hundruð starfsmenn verði í vinnu hjá fyrirtækinu á næsta ári. 

„Fólk er búið að vera mjög sátt“ 

Greint hefur verið frá því að ASÍ hafi borist vísbendingar um að greiða eigi grunnlaun langt undir því sem almennir kjarasamningar segi til um. Drífa Snædal, forseti ASÍ hvetur nýja flugfélagið til að birta kjarasamninga og leggja allt á borðið. Ekki verði liðið að fyrirtæki starfi á íslenskum vinnumarkaði með undirboðum.

María Margrét segir hins vegar að samningar við starfsfólk hafi gengið mjög vel. Enginn sé óánægður með kjarasamningana, sem séu mjög góðir. Boðið sé upp á betri kjör en tíðkist víða erlendis. „Fólk er búið að vera mjög sátt.“