Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Plastmengun í hafi mjög alvarlegt vandamál“

05.02.2017 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það vakti mikinn óhug þegar sárþjáðan hval rak á land í Noregi á dögunum - en hann var fullur af plastpokum. Hvalasérfræðingur segir að ekkert í líkingu við þetta hafi enn komið upp hér við land, en að plastmengun í hafi sé mjög alvarlegt vandamál.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi að í vikunni hefði rúmlega sex metra langan gáshnall ítrekað rekið á land við Björgvin í Noregi. Þegar dýrið var aflífað kom í ljós að það hafði innbyrt meira en þrjátíu plastpoka.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Plastpokar sem fundust í maga hvalsins

Gísli Arnór Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að ekkert í líkingu við þetta hafi komið upp hér á Íslandi. „Ég hef ekki séð svona og veit ekki til þess að það hafi verið svona slæmt tilfelli eins og þarna í Noregi. Við höfum vissulega, það hefur komið fyrir að við höfum fundið einhvers konar aðskotaefni í hvalsmögum en ekkert í líkingu við þetta. Það hefur komið fyrir að það hafa fundist bútar úr plastpokum og svona eitthvað drasl úr sjónum.“

Gáshnallar flokkast til svínhvala - þeir halda til í úthöfum og kafa mjög djúpt. Þeir veiða með bergmálstækni og eru tannlausir. Þeir éta með því að sjúga matinn upp í sig og því er algengt að plast og annað rusl finnist í iðrum þeirra. Þá rekur hins vegar sjaldan á land á Íslandi og því ekki hægt að leggja mat á umfang plastmengunar hér við land.

„En við höfum rannsakað mörg hundruð skíðishvali, sérstaklega hrefnu og langreyði og þar virðist þetta ekki vera sama vandamál eins og hjá hinum svínhvölunum. Plastmengun hefur samt fengið mjög mikla athygli á síðustu árum og er mjög stórt vandamál, því það eru bæði þessi stóru hlutir og svo líka smásæjar agnir, plastmengun. Þannig að þetta er að fá mikla athygli sem verulega stórt vandamál almennt í mengun sjávar.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV