Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Plastmagn í hafi vaxandi vandamál

11.09.2019 - 08:51
Mynd með færslu
 Mynd: ruv.is
Allt að fjögur prósent af því plasti sem framleitt er lendir í hafinu en um fimm til þrettán milljónir tonna plasts eru í hafinu á heimsvísu. „Vandamálið auðvitað stækkar ennþá meira þar sem við erum alltaf að framleiða meira og meira af plasti. Því verður þessi tala í magni alltaf hærri,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. Kristín var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun.

„Á heimsvísu er auðvitað ljóst að í mörgum heimsálfum er öll meðhöndlun úrgangs ekki nægilega góð. Þú ert kannski með menningu sem er vön því að vera með allt þannig að það rotnar og fer inn í lífkeðjuna og svo allt í einu ertu komin með allt úr plasti. Síðan er almenn meðhöndlun á plasti ekki góð, menn eru að týna þessu í sjávartengdum iðnaði, skólpið er ekki nægilega vel hreinsað, það er að fjúka af urðunarstöðum og síðan bara við sjálf. Við pössum ekki nógu vel upp á það að plastið fjúki ekki frá okkur og að það fari á rétta staði,“ segir Kristín.

Kristín segir að árið 2050 verði hugsanlega meira af plasti í hafinu en fiskum. „Það er auðvitað skelfileg framtíðarsýn. Það er þess vegna sem ráðamenn alls heimsins hafa verið að koma saman til þess að takast á við þetta vandamál og það er jákvætt að það virðist enginn vera á móti því að takast á við plast í hafinu,“ segir Kristín.

Ísland hafi gert ýmislegt til að takast á við plastmengun. „Við erum í gegnum tíðina búin að vera í ýmsum samstarfsverkefnum. Við höfum verið með auglýsingar og við höfum auðvitað núna sett reglur um að þú verðir að kaupa plastpokann. Plastlaus september er síðan fyrirbæri sem byrjaði bara fyrir nokkrum árum síðan en hefur gjörsamlega blómstrað. Við erum að veita fyrirtækjum verðlaun fyrir að standa sig vel í þessu. Það er margt verið að gera og verslanir hafa tekið vel við sér,“ segir hún.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV