Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Plastið fer ýmist í græna, bláa eða gráa tunnu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Umhverfisráðherra segir það ekki ganga upp að plast sé flokkað með mismunandi hætti í sveitarfélögum. Á höfuðborgarsvæðinu er plast ýmis sett í gráar tunnur, bláar eða grænar. Ráðherra undirbýr lagafrumvarp um samræmdar merkingar. Hann vonast til þess að það hljóti samþykki Alþingis fyrir þinglok í vor.

Þeir sem búa í Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Kópavogi og á Seltjarnarnesi geta sett plastið sem þeir flokka í einn plastpoka og sett það svo í gráu tunnuna þar sem heimilissorpið er. Þeir sem búa í Reykjavík þurfa að leigja sér tunnu undir plast, fara með það í grenndargám eða á endurvinnslustöð. Þeir sem búa í Kópavogi setja plastið í bláu tunnuna með pappírnum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þannig að í Reykjavík fer plastið í grænar tunnur, í Kópavogi í bláar og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu í gráar tunnur. Til þess að flokka plastið frá venjulegu heimilissorpi keypti Sorpa fyrir tæpum tveimur árum sértakan vélbúnað sem hefur fengið nafnið Kári. Hann var að vísu í tímabundnu óstandi þegar fréttastofu bar að garði. En alla jafna blæs Kári á sorppokana og léttu pokarnir með plastinu skiljast þannig frá þyngri pokum. 

En hvers vegna nýta ekki öll sex sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vindflokkarann Kára? Sveitarfélögin eiga Sorpu. 

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

„Og við erum byggðarsamlag í eigu þeirra og eigum að sinna þessari þjónustu fyrir sveitarfélögin en svo eru bara aðrir þrýstiaðilar hér á höfuðborgarsvæðinu sem eru að selja þjónustu og þeir kannski bara hafa sterkar raddir inni í sveitarfélögunum og geta sannfært sveitarfélögin um annað,“ segir Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri umhverfis- og fræðslumála hjá Sorpu bs.

Ragna bendir á að frá árinu 2009 hafi Sorpa unnið eftir sameiginlegri stefnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um flokkun Sorps. 

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV

„Við þurfum að samræma flokkun milli sveitarfélaga og landshluta og þess vegna hyggst ég setja fram frumvarp á Alþingi núna í vor,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra (V).

Þannig að þér finnst núverandi ástand ekki ganga upp?

„Núverandi ástand gengur ekki upp. Við þekkjum það öll þegar við ferðumst um landið að það er mjög mismunandi með hvaða hætti er flokkað. Þetta er mál sem við þurfum að breyta og við erum að vinna í því,“ segir Guðmundur Ingi. Hann vonast til að frumvarpið verði samþykkt á vorþingi.