Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Plastagnir í kranavatni um allan heim

06.09.2017 - 19:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Plastagnir finnast í kranavatni um allan heim. Verst er ástandið í Bandaríkjunum en þar fundust plastagnir í níutíu og fjórum prósentum sýna. Sérfræðingur í örplastrannsóknum segir hættu á að nanóagnir sem komast inn í frumur og líffæri fólks sé að finna í kranavatni.

159 kranavatnssýni voru tekin hjá tólf þjóðum í þessari rannsókn. Sem fyrr segir fundust plastagnir í 94 prósentum sýna í Bandaríkjunum, þar á meðal í kranavatni í þinghúsinu, hjá Bandarísku umhverfisstofnuninni og í Trump turninum í New York. Þá fundust einnig plastagnir í drykkjarvatni sem selt var á flöskum.

Næst á eftir komu Líbanon og Indland. Í Úganda mældust plastagnir í 80,8 prósentum sýna, í Ekvadór var hlutfallið 79,2 prósent, í Indónesíu 76,2 prósent og í Evrópu 72,2 prósent en þar voru sýni tekin úr kranavatni í Englandi, Þýskalandi og Frakklandi. Fjöldi trefja í vatninu var á bilinu 1,9 í Evrópu upp í 4,8 í Bandaríkjunum á hverja 500 millilítra.

Þessi nýja rannsókn undirstrikar hversu alltumlykjandi plastagnir eru orðnar í umhverfinu. Fyrri rannsóknir hafa helst beint sjónum að plastmengun í höfunum og hvernig fólk neytir þar með plasts í gegnum mengaðar sjávarafurðir.

Doktor Sherri Mason, sérfræðingur í örplasti við Ríkisháskólann í New York segir í samtali við Guardian, sem greinir frá rannsókninni, að fyrst örplast sé farið að greinast í drykkjarvatni, sé full ástæða til að ætla að nanóagnir plasts kunni líka að vera í vatninu. Þær séu svo litlar að þær geti laumað sér inn í frumur og þar með líffæri og það sé verulegt áhyggjuefni.

Umfang plasttrefjamengunar er að verða æ ískyggilegra. Rannsókn í Þýskalandi leiddi nýlega í ljós að plastagnir fundust í öllum 24 bjórtegundum sem kannaðar voru og franskir vísindamenn greindu frá því fyrir tveimur árum að ætla mætti að þrjú til tíu tonn af plasttrefjum falli til jarðar með úrkomu í París á hverju ári. Þessar plastagnir er líka að finna í andrúmslofti borgarbúa á heimilum þeirra.

Árlega eru framleidd um 300 milljónir tonna af plasti í heiminum. Rétt um 20 prósent eru endurunnin eða brennd. Stærstur hluti plastsins endar sem rusl í lofti, á láði og legi.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV