Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Plastagnir í fólki geti leitt til eituráhrifa

11.06.2019 - 13:46
epa01082206 Fish swim near a plastic bag along a coral reef off the coast of the Red Sea resort town of Naama Bay, Egypt, 01 August 2007. Egypt's Red Sea coast is a popular vacation destination and water sports such as snorkling and diving burden the
 Mynd: EPA
Meðalmaðurinn innbyrðir að minnsta kosti 50.000 agnir af örplasti á ári hverju. Þessi tala tvöfaldast ef innöndun er talin með. Líklegt er að talan sé í raun hærri en aðeins lítill hluti matvæla og drykkjarvatns hefur verið mældur. Lítið er vitað um afleiðingar plastagna í fólki.

Þessu greindi Morgunblaðið frá fyrir helgi en fyrsta rannsókn á örplasti í fólki var gefin út nýverið. Rannsóknin byggist á gögnum úr 26 eldri rannsóknum á plastögnum í fiski, skelfiski, sykri, salti, bjór og vatni.

Grímur Ólafsson, fagsviðsstjóri Matvælastofnunar segir lítið vitað um hvaða áhrif örplast geti haft á heilsu fólks. Hann segir að þessar agnir, sem eru á stærðarbilinu 0,1-500 míkrómetrar, eða einn þúsundasti úr millimetra, berist víða, til að mynda í meltingarveginn. Nanóefni, eða plast sem er þúsund sinnum minna en örplastsagnir, geti svo borist í blóðrásina.

Þótt lítið sé vitað um áhrif agnanna á heilsu fólks er talið að þær geti leitt til eituráhrifa. Grímur segir að aukaefni sé bætt í framleiðsluna þegar plast er búið til. Þessi efni geta svo losnað og auk þess geta þau dregið að sér önnur hættuleg og mengandi efni.

Hann segir að það sé erfitt að forðast þessi efni þar sem þau séu alls staðar í umhverfinu og í ýmsum matvælum. Agnirnar myndast helst við niðurbrot á plasti sem lendir einhvers staðar í náttúrunni, svo sem plastpokar og plastflöskur sem skildar eru eftir á víðavangi. Stór hluti hafnar svo í sjónum.

Hann segir mikilvægt að auka meðvitund fólks um förgun plasts svo það lendi ekki í náttúrunni. Hann segir að skilagjald við endurvinnslu á plasti sé að virka vel sem hvatakerfi og að stór hluti af umbúðum skili sér því í endurvinnslu hérlendis. Hann segist viss um að átak sem miði að því að draga úr plastnotkun, svo sem að bjóða upp á umbúðarlausa matvöru og draga úr notkun á einnota plasti, sér í lagi burðarpokum, hafi jákvæð áhrif.

Opinberir aðilar, fyrirtæki og almenningur vinna nú öll að því að draga úr plastnotkun. Umhverfisstofnun býður nú verðlaun til þeirra sem koma með framúrskarandi lausnir sem stuðlað geta að minni plastnotkun og úrgangi í samfélaginu. Þá hefur Alþingi samþykkt bann við burðarpokum úr plasti frá og með 2021.