Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Pláss fyrir fleiri börn í grunnskólanum

Mynd með færslu
 Mynd: esveit.is - Eyjafjarðarsveit
Sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar er ánægður með kjörtímabilið sem er að ljúka. Hann segir sveitarfélagið standa vel en helst sé vöntun á börnum og barnafjölskyldum. Hann er ánægður með samstarfið við önnur sveitarfélög á svæðinu. 

Tveir listar bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga í Eyjafjarðarsveit, F-listinn, með Jón Stefánsson í fyrsta sæti og K-listinn sem Ásta Arnbjörg Pétursdóttir leiðir. Ólafur Rúnar Ólafsson tók við starfi sveitarstjóra árið 2016 þegar Karl Frímannsson lét af störfum. 

Vilja fleiri barnafjölskyldur

Ólafur sagðist, í viðtali á Rás 1, vera sáttur með það starf sem hafi verið unnið í sveitarfélaginu. „Við berum okkur vel, við búum við mjög góðan hag," segir hann. Helsta áherslan í Eyjafjarðarsveit sé að reyna fjölga barnafjölskyldum. „Við erum komin í þá stöðu að okkur vantar börn,“ segir Ólafur og bætir við að það sé pláss fyrir fleiri börn í grunnskólanum. 

Til þess að reyna fjölga fólki hefur sveitarfélagið meðal annars úthlutað lóðum undir íbúðarhúsnæði. „Það er mikið að gerast í því, 15 íbúðir í byggingu sem er talsvert í ekki stærra sveitarfélagi,“ segir Ólafur.

Samgöngumál eru íbúum í sveitarfélaginu hugleikin, enda sveitarfélagið mjög víðfeðmt. Nýlega var svo tekin ákvörðun um að spjaldtölvuvæða kennslu í grunnskólanum á svæðinu, sem verður þá eitt af verkefnum næstu sveitarstjórnar.

Eldri borgarar og heilbrigðisþjónusta

Annað sem er íbúum í Eyjafjarðarsveit hugleikið eru málefni eldri borgara. Ólafur segir að verið sé að vinna í húsnæðismálum fyrir eldri borgara og ætlunin sé að halda húsnæði sem sveitarfélagið á, fyrir þá. Á sama tíma er áhersla lögð á gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu íbúa. „Það varðar auðvitað öll sveitarfélögin í nágrenni Akureyrar að heilbrigðisþjónustan þar sé öflug og raunverulega boðleg fyrir landsbyggðina,“ segir Ólafur.

Samstarf gengið vel

Rúmlega þúsund íbúar búa í Eyjarfjarðarsveit. Sveitarstjórar Eyjafjarðarsveitar, Hörgársveitar og Svalbarðsstrandarhrepps sammælast allir um að samvinna milli minni sveitarfélaganna á svæðinu hafi gengið mjög vel, sem og við Akureyri. Litlar umræður hafa verið um sameiningu sveitarfélaganna fyrir þessar kosningar.

Ólafur segir mikinn mun á áherslum hjá smærri sveitarfélögum, eins og Eyjafjarðarsveit, og stærri, líkt og Akureyri. „Það er afar nauðsynlegt að þeir sem eru að fjalla um skipulagsmál á hverjum stað hafi staðgóða þekkingu á sínu sveitarfélagi og séu í raun sérfræðingar á sínu svæði ef svo má segja," segir hann.

Starf sveitarstjórnarinnar hafi gengið vel fram að þessu. Ólafur segir lýðræðið mjög skilvirt og beint í smærri sveitarfélögum. „Fólk kemur inn á sveitarstjórnarskrifstofuna, eða hringir í sinn sveitarstjórnarfulltrúa og kemur sínum hugðarefnum á framfæri,“ segir hann. Hann segir fólk í sveitarfélaginu almennt áhugasamt fyrir kosningunum.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður