Plan – B þrýstir á þolmörk listarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Plan-B

Plan – B þrýstir á þolmörk listarinnar

08.08.2019 - 13:17

Höfundar

Samtímalistahátíðin Plan – B fer fram í fjórða sinn í Borgarnesi um helgina. Dagskrá helgarinnar er af fjölbreyttu tagi og inniheldur meðal annars gjörninga, veggmyndir og gígantískan skúlptúr.

Dagskrá hátíðarinnar hefst í dag og stendur yfir helgina. Á annan tug listamanna og -hópa sýna verk sín í ár. Listamennirnir koma bæði frá Íslandi og erlendis frá. Þar má til dæmis nefna listamannahópinn Krot og Krass sem hannar varanlegt vegglistaverk. Einnig sýnir listakonan Katrín Inga Jónsd. Hjördísar gígantískan skúlptúr sem blasir við þegar keyrt er inn í bæinn.

Aðstandendur hátíðarinnar eru myndlistarmennirnir Logi Bjarnason og Sigrún Gyða Sveinsdóttir, Sigursteinn Sigurðsson arkitekt, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, sýningarstjóri og MA nemi í listfræði og Bára Dís Guðjónsdóttir, verkefnastýra. Á sjötta tug listamanna hafa tekið þátt í hátíðinni frá upphafi. Hátíðin fer stækkandi með ári hverju en erfitt er að fjármagna menningarstarf á landsbyggðinni.

Úr verki Snæfríðar Sólar Gunnarsdóttur
Úr verki Snæfríðar Sólar Gunnarsdóttur

„Fólk lítur ennþá dálítið á myndlist sem áhugamál en við höfum frá fyrsta degi haft það sem prinsipp að borga listamönnum fyrir þátttöku á hátíðinni. Þó það þýði að við séum í sjálfboðaliðastarfi og höfum borgað með hátíðinni þá finnst okkur finnst mikilvægt að borga myndlistarmönnum laun.“

 „Nafnið er tilkomið vegna sögu Borgarness sem iðnaðarbæjar. Um tíma var blómlegur landbúnaður og iðnaður í bænum en tímarnir hafa breyst og tími er kominn á Plan-B, það er listir og menningu.“ Segja aðstandendur hátíðarinnar.

Sýnt er í húsnæðum um allan bæ. Meðal annars gömlu fjósi, félagsheimili kirkjunnar og sögulofti Landnámssetursins. Dagskránna má nálgast á facebook síðu viðburðarins.

Höggmynd Sindra Leifssonar
Skúlptúr eftir Sindra Leifsson

Tengdar fréttir

Borgarbyggð

Aka á keilur þegar þeir sjá konur helluleggja

Menningarefni

„LungA varð til vegna frekju í mér“