Plágan og kófið

Mynd: CC / CC

Plágan og kófið

22.03.2020 - 11:34

Höfundar

Hermann Stefánsson rithöfundur fjallar að gefnu tilefni um skáldsöguna Pláguna eftir franska rithöfundinn Albert Camus. Bókin kom út árið 1947 og segir frá farsótt sem leggst á alsírsku borgina Oran snemma á síðustu öld, fjallar um það hvernig samfélag glímir við farsóttir, segir frá hugrekki einstaklinga, ofsatrú, uppgjöf, múgæsingu og endurlausn.

Hermann Stefánsson skrifar:

„Ég ætla nú ekkert að hræða þig,“ sagði konan á bakvið afgreiðsluborðið á bókasafninu við mig þegar ég rétti henni bók sem ég hugðist taka að láni, Pláguna eftir Albert Camus. Ég skildi ekki hvað hún átti við en sá svo að hún var í gúmmíhönskum. Bækur eru jú gerðar til að vera handfjatlaðar.

Ég hafði ekki lesið Pláguna eftir Nóbelsverðlaunahafann Albert Camus frá því ég var barnungur og það var tímabært að lesa hana aftur, ef maður vill þá lesa endurlesa bækur sem hafa haft mikil áhrif á mann og treystir sér til að verða ekki fyrir vonbrigðum. Plágan kom út á íslensku í afbragðs þýðingu Jóns Óskars árið 1952, fimm árum eftir frumútgáfuna. Hún er öðruvísi en mig minnti, enda mundi ég bara eina senu og sterkt andrúmsloft. Það kom í ljós að senunni sem ég mundi hafði ég ruglað saman við senu úr bók eftir José Saramago sem skrifaði tvær skáldsögur af hreinræktuðum „hvað-ef“ toga. Önnur þeirra, Blinda, kom út á íslensku. Munurinn er sá að þetta eru í og með furðusögur. Saramago gægist á bakvið tjöldin hjá stórnvöldum þegar skyndileg blinda ríður yfir samfélagið eða þá í hinu tilvikinu, að fólk hættir að deyja. Saramago rýnir í valdastrúktúr og stórnmál. Sviðsetur samtöl valdsmanna. Plágan er ekki furðusaga og stjórnmálamenn eru með öllu fjarverandi. Ekki er spurt um stjórnmál heldur hið mennska ástand, sálarlífið andspænis fráleitu ástandi. Stíllinn er auk þess allur annar, svo ótrúlega tær, þótt frásagnaraðferðin sé skyld: stundum er sagt frá í fyrstu persónu fleirtölu, „við“, og tóntegundin er einhvern veginn ... bæði hlutlæg og hlý.

Sagan hefst á því að rottur taka að skríða úr hverju skúmaskoti í borginni Oran í Alsír og drepast, þúsundum og þúsundum saman. Persónurnar eru ekki fulltrúar hugmynda í heimspekilegri tilraunastofu heldur vel skapaðar skáldsagnapersónur sem breytast og þróast eftir því sem sögunni vindur fram. Þetta er heldur ekki æsileg katastrófubók, tónninn er ákaflega tempraður og margt látið ósagt. Það er ekki beinlínis hægt að seilast í þessa bók eftir viðbragðsáætlun en kannski er hún næmasta lýsing á sálarástandi fólks í farsótt, sem skrifuð hefur verið. Það eru ákveðnir fasar í gegnum pláguna: Afneitun, hystería, andóf gegn hysteríu, meiri afneitun, óskýrt upplýsingaflæði skýrara upplýsingaflæði og loks aðgerðir og svo harðari aðgerðir. Stjórnvöld landsins loka borginni. Hliðverðir gæta innganga.

Sögumaður, sem hefur tekið saman annála úr dagbókum annarra og eigin reynslu, lætur ekki uppi hver hann sé fyrr en í bókarlok. Frásögnin er hlutlæg, æsingalaus, yfirveguð. Aðalsöguhetjan er Bernard Rieux, ungur læknir, orðvandur og grandvar náungi sem ber hitann og þungann af aðgerðum heilbrigðisstéttarinnar þegar  plágan skellur á af fullum þunga og fólk tekur að deyja. Við plágunni er enginn lækning. Rieux sker á kýli til að hleypa út greftri, setur upp sóttkví og einangrun, gengur fumlaust til verks, einfaldlega af því að það er hans starf, og ber sinn eigin harm í hljóði, en kona hans hefur nýverið verið send á heilsuhæli utan borgarinnar vegna óskyldra meina.

Það er aðskilnaðurinn frá umheiminum og oft á tíðum ástvinum sem hafa verið staddir utan borgarmarkanna þegar lokunin skall á sem fyrst hefur áhrif, auk sívaxandi dauðsfalla. Fólk saknar. Það fyllist útlegðarkennd. Það reynir að eiga í samskiptum við ástvini sína með ýmsu móti, símalínur springa fljótt, bréfaskipti eru bönnuð þar sem bréf geta verið smitberar og endað er á símskeytum. Sá stíll er knappur, í símskeyti verður ekki meira sagt en að viðkomandi líði vel og sjái bráðum ástvininn. Með einhverjum hætti og ásamt öðru hefur þetta áhrif á sjálfstjáninguna yfirleitt. Fólk fyllist einhverju sem minnir á hlutlægni. Orðum þess fækkar, orðfærið breytist og fólk fer að orða flóknar sálarkrísur í fáum orðum.

Sögupersónum fjölgar. Sem þrettán ára gamall lesandi veitti ég því ekki athygli hversu fáar kvenpersónurnar eru, enda las ég ekki Helgu Kress fyrr en fjórtán ára, en hvað um það — endurspeglar þetta ekki samfélagsgerð bókar sem er barn síns tíma? Aðkomumenn læsast inni í borginni og ein af hnýsilegustu persónunum er hin dularfulli Jean Tarrou sem er þar staddur í ókunnum erindagjörðum, er fullur af kátínu og dálítið yfir aðra hafinn. Hann heldur dagbók sem er full af glöggum en einkennilegum athugasemdum. Hann minnist á hinn ljósbrúna augnalit móður læknisins og um augnatillit Rieux læknis segir hann að augnatillit sem feli í sér slíka góðsemi verði „ávallt máttugra en drepsóttin“.

Svo kemur til þess að klerkurinn í sögunni, Jesúítinn Paneloux, heldur eldræðu: „Bræður mínir, ógæfan er til yðar komin, bræður mínir, þér hafið verðskuldað hana.“ Hann vitnar í plágur í Egyptalandi til forna. „Frá upphafi sögunnar hefur plága drottins beygt hina hrokafullu og blindu í duftið. Hugleiðið þetta og fallið á kné.“ Hugsunin er á einhvern hátt inngróinn í mannshugann og þarf ekki einu sinni fulltrúa trúarbragða til að færa hana í orð: Plága er ekki tilgangslaus hending heldur refsing fyrir hroka og spillingu. Guð, náttúran, eða hvað sem það er, hefur litið undan. „Stund íhugunarinnar er komin.“  

Þetta verður vinsælt. 200 þúsund manna borg sem í upphafi bókar er lýst sem ósköp venjulegri borg, hún sé ljót, sviplaus, fólki leiðist í henni, það lifi lífinu í senn viðutan og í eilífum æsingi, vinni mikið og ævinlega í þeim tilgangi að verða ríkt, hafi ekki áhuga á neinu nema verslun og gróðabralli, sjaldnast sé neitt meðalhóf á því hvernig fólk elskar, það eyðileggi sig ýmist fljótt á „ástarævintýrum“ eða flækist tvennt saman í vana — þessi borg verður næsta heltekin af þeirri hugmynd að plágan hafi tilgang og sé refsing fyrir hrokann, fólk snýr sér að trú og ekki síður hindurvitnum, bókum sem gefa vafasöm heilræði um hvernig megi forðast pláguna, á milli þess sem það sekkur sér í lestur eilífra frétta um pláguna sem segja ekkert nýtt og eru skrifaðar af þreyttum blaðamönnum sem leiðist. Og hlustar á eldmessur séra Paneloux.  Hinn sérkennilegi Tarrou skrifar í dagbók sína:

„Ég skil þennan tilfinningahita. Þegar plágur eru að hefjast, svo og þegar þær eru að enda, eru ávallt haldnar ræður af meiri eða minni mælsku. Í fyrra skiptið er vaninn enn við lýði, í síðara skiptið er hann aftur kominn til lífs. Það er á stund ógæfunnar sem menn venjast sannleikanum, það er að segja þögninni. Sjáum hvað setur.“

Eins og fara gerir um lækna þarf Rieux að brynja sig. Hann þarf að gera óvinsæla hluti, aðskilja sýkt börn frá foreldrum sínum og setja þau í sóttkví og óvíst að foreldrarnir sjái þau aftur. Hann er ásakaður um að vera kaldur og fræðilegur. Upp úr þurru býðst aðkomumaðurinn Tarrou til að koma á fót sjálfboðaliðasamtökum til að mæta plágunni. Um síðir ákveður presturinn að ganga til liðs við þau. Þegar læknirinn og presturinn  horfa upp á barn deyja missir sá fyrrnefndi í eina skiptið þolinmæðina og segir hug sinn:

„Rieux sneri sér við hvatskeytlega og hreytti út úr sér:

            — Nú, þetta barn var þó saklaust, það vitið þér vel!“

Af því að horfa upp á barnsdauðann kemst séra Paneloux í ákveðna trúarkreppu. Enda þótt dauði barnsins verði ekki skýrður röklega, ályktar hann, sé hann prófsteinn á trúna og lúta skuli vilja Guðs. Svo leggst hann sjúkur, neitar læknisaðstoð og deyr — en ekki úr plágunni heldur einhverju öðru, óútskýrðu. Þannig fer fyrir trú og trúaráróðri þegar að kreppir, segir kannski einhver, og jú, en trúin er ekki ein um að búa til skiljanlega og rökrétta sögu úr aðstæðum sem eru í eðli sínu fáránlegar og tilgangslausar. Í hugann kemur skáldsagan Sælir eru einfaldir eftir Gunnar Gunnarsson sem gerist í plágu á Íslandi. Albert Camus er svolítið önnur hugmyndadeigla og annar stíll.

Sögumaður segir leitt að geta ekki sagt frá neinu verulega rismiklu, aðdáanlegri hetjulund eða frækilegu afreki. „Sannleikurinn er sá, að ekkert er risminna en plága, því að mikið ólán verður á slíkum tímum tilbreytingarlaust eftir því sem það endist lengur.“ Deyfð og doði, útlegðarkennd og einmanaleiki, tómleiki fellur yfir, fólk verður rýrara í sér. Þó fer ekki hjá því að draga megi orð sögumanns í efa og sjá að Rieux læknir sýnir af sér töluvert þolgæði og æðruleysi, jafnvel hugrekki  í fáránlegum aðstæðum. Sú eina persóna sem sögumaður ber alveg ótvírætt hlýjan huga til er Joseph Grand, húmoríska persónan í sögunni, sem er að skrifa bók en á erfitt með fyrstu efnisgreinina og ber orðalag hennar í sífellu undir hvern sem heyra vill. Bókin reynist 50 blaðsíður, allt mismunandi útgáfur af fyrstu efnisgreininni.

Í sögunni er líka maður sem hefur komist í kast við lögin, reynt að farga sér en misheppnast. Í hans augum er plágan kjörin. Hann verður ekki handtekinn á meðan, heimurinn hefur stillt sig inn á hans bylgjulengd og hann kætist. Er á meðan er. Menn reyna að græða á plágunni, með smygli á vörum og aðstoð við flóttatilraunir. Sögumaður dæmir engan hart

Það kemur á daginn að Tarrou sjálfur á sér hugmyndafræðilegar ástæður fyrir hjálparstarfi sínu. Ungur hefur hann horft upp á föður sinn dæma mann til dauða í réttarsal og orðið mjög andvígur dauðarefsingum. Hann berst í spænsku borgarastyrjöldinni og gengur til liðs við öfl sem dæma fólk til dauða í baráttunni gegn samfélagi sem dæmir fólk til dauða. Hann missir trú á fyrirbærið „fórnarkostnað“ og talar um hugmyndir eins og þær séu plágur. „Okkur ber að gera allt, sem við getum, til að vera ekki pláguberar, og það eitt getur gefið okkur von um frið eða að minnsta kosti heiðvirðan dauða. Þetta eitt getur orðið okkur til huggunar og ef ekki frelsis þá, að minnsta kosti gert lífið eins lítið illt og unnt er að hugsa sér, stundum jafnvel eitthvað gott.“ „Hver einasti maður hefur hana í sér, drepsóttina  [...] Og okkur ber ávallt að gæta þess að við öndum ekki í hugsunarleysi framan í meðbróður okkar og sýkjum hann. Það sem er eðlilegt, er sýkillinn. Allt hitt, heilbrigði, ráðvendni, hreinleiki skulum við segja, er afleiðing viljans og sá vilji má aldrei bresta. Heiðarlegur er sá, sem fæsta sýkir og sjaldnast gerir sig sekan um hugsunarleysi.“ Hugmynd Tarrou með hjálparstarfinu er að athuga hvort mögulegt sé að gerast dýrlingur án nokkurs Guðs. Annállinn, segir sögumaður, gat ekki verið annað en saga þess sem varð að gera, saga um alla þessa menn sem gátu ekki verið dýrlingar en neituðu þó að lúta plágunni og reyndu að vera græðarar. Hann hefur skrifað annálinn til að vera ekki einn þeirra sem þegja. Þegar rotturnar taka að birtast aftur er það til marks um að plágan er farin að hopa.

***

„Ég ætla nú ekkert að hræða þig,“ sagði hanskaklædda konan sem afgreiddi mig um Pláguna eftir Albert Camus á bókasafninu. Má læra eitthvað af þessari bók? Ekkert af praktískum toga sem smitlæknar geta ekki sagt manni. En sitthvað um tilfinningar og sálarlíf sem fátt getur sagt manni betur frá en skáldskapur. Þessi bók er snilldarverk. Niðurstaða læknisins lætur kannski ekki mikið yfir sér og er sannarlega laus við alla ofrausn og alla ofsögn en er þeim mun fallegri, þau einföldu sannindi sem menn læra á drepsóttartímum: „Það er fleira aðdáunarvert en fyrirlitlegt í fari mannanna.“

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Maðurinn í skóginum

Tónlist

Trúleysi og tilvistarhyggja á kirkjulistahátíð

Bókmenntir

Plágan eftir Albert Camus

Bókmenntir

Útlendingurinn - Albert Camus