Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Pizzukvöld í neyðarskýlinu á Granda

Mynd: pexels / pexels
Reykjavíkurborg hefur sett af stað neyðaráætlun til þess að tryggja að enginn liggi úti í nótt. Í nýja neyðarskýlinu á Granda verður pizzukvöld. Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir deildarstjóri í þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar fyrir Vesturbæ, Miðborg og Hlíðar segir mikilvægt að skapa stemmningu í skýlunum þannig að fólk velji að vera inni. Vettvangs- og ráðgjafarteymi borgarinnar hefur gengið vel að ná til fólks. 

Kanna hvort einhver heldur til í húsgrunni eða hjólhýsi

„Við setjum af stað neyðaráætlun eða aðgerðaáætlun í samstarfi við Frú Ragnheiði, lögregluna og landspítalann, höldum bráðamótttökunum upplýstum. Við reynum að kortleggja hvort það sé einhver sem við höfum vitneskju um að gæti mögulega haldið til einhvers staðar úti, hvort sem það sé í húsagrunni eða hjólhýsi, við sendum sérfræðingana í Vettvangs- og ráðgjafarteyminu á vettvang, þau þekkja flesta og hafa verið að spjalla við fólk í dag og aðeins í gær, vara við veðrinu og kanna hvort einhver sé í neyð, í ótryggum aðstæðum eða þurfi aðstoð við að komast í neyðarskýli. Það er sama með skaðaminnkunarúrræðið Frú Ragnheiði, þau hafa verið að vara sitt fólk við.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Hrafnhildur Ólöf.

Æfðu áætlunina í frosthörkum í fyrra

Hrafnhildur segir að það hafi gengið vel að ná til heimilislausra. „Við prófuðum þetta síðasta vetur, þá kom kuldakast og þá æfðum við áætlunina. Við náðum þá að kemba höfuðborgarsvæðið með samstarfi allra þessara aðila og komumst til dæmis að því að einn, sem hafði sofið úti í tjaldi stuttu áður, var kominn í öruggt skjól. VIð búum að þessari reynslu núna og þetta vinnst hratt. Við erum með ákveðna tengiliði innan lögreglunnar og á Landspítalanum og allir mjög samtaka.“

Minni aðsókn en í fyrra

Í Reykjavík eru þrjú gistiskýli fyrir heimilslaust fólk. Í gistiskýlinu við Lindargötu eru 25 rými fyrir heimilslausa karlmenn. Í Konukoti er pláss fyrir 12 heimilislausar konur og í nýju neyðarskýli sem opnað var við Grandagarð fyrir þremur vikum, er svefnpláss fyrir 15 heimilislausa karlmenn undir þrítugu sem glíma við áfengis- eða vímuefnavanda.Venjulega eru skýlin opin frá fimm síðdegis til tíu að morgni en í dag voru þau opnuð klukkan tvö og engum verður vísað frá. Í heildina eru gistiplássinn 52 en síðustu vikur hafa þau ekki verið nýtt að fullu. Það eru ákveðin viðbrigði því síðasta vetur vetur þurfti oft að bæta við dýnum vegna mikillar aðsóknar. Hrafnhildur telur að nýja skýlið á Granda hafi mætt þörfinni að einhverju leyti. Þá sé hluti hópsins sem var í vandræðum kominn í varanlegt úrræði. 

Lagt upp úr því að skapa stemmningu á Granda

neyðarskýli fyrir unga heimilislausa karla
 Mynd: Aðsend mynd - Reykjavíkurborg
Neyðarskýlið á Granda var opnað fyrir tæpum mánuði og er ætlað ungum körlum.

Neyðarskýlið á Granda var opnað vegna þess að fagfólk hafði rekið sig á það að ungir karlmenn í ótryggum aðstæðum treystu sér margir ekki til þess að fara í skýlið á Lindargötu. Þar er unnið að því að skapa verndað umhverfi fyrir þennan hóp, unga menn sem hafa ekki verið lengi heimilislausir. 

Hrafnhildur segir að það séu ekki mjög margir á götunni í borginni og hún býst ekki endilega við því að skýlin fyllist í nótt. „Nei, en við keyptum auka mat og úti á Granda er búið að gera ráð fyrir að panta pizzu og það á að horfa á vídjó. Sama gildir um önnur úrræði, við erum að bæta í þjónustu og stemmningu til þess líka að auka líkurnar á því að fólk vilji vera inni. Það er mikilvægt að við bjóðum þannig stemmningu að fólk velji ekki frekar að fara út.“

Fólk neyti oft í felum

Þetta er kannski ákveðin áskorun í nýja skýlinu á Granda, þar eru ungir karlmenn og þeirra neyslumynstur er kannski annað en karlanna sem sækja skýlið við Lindargötu, þeir neyta kannski frekar vímuefna á nóttunni? 

„Já, það er staðreynd og þess vegna lögðum við sérstaklega mikið púður í að skapa stemmningu. Það er búið að kynna þetta kvöld og segja frá því að það sé búið að panta pizzu og eigi að horfa á myndir,“ segir Hrafnhildur. Hún segist hafa heyrt í forstöðumanninum. hann hafi sagt stemmninguna í hópnum góða. Það má ekki neyta vímuefna í gistiskýlunum en Hrafnhildur segir alla meðvitaða um það að fólk með neysluvanda noti oft í felum. „Við gerum ráð fyrir því að það sé gert og reynum að eiga samtal við fólk um það. Að gera þetta frekar í tryggum aðstæðum. Við verðum bara að vera raunsæ en við bjóðum ekki upp á neyslurými, þvert á móti.“ 

Þess má geta að vaktsími Vettvangs- og ráðgjafarteymisins verður opinn í kvöld. Vaktsími Frú Ragnheiðar sömuleiðis. Fólk sem er í neyð og þarf aðstoð getur haft samband.