Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Pítsuræða“ Guðna vekur athygli erlendra miðla

21.02.2017 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ummæli Guðna Th. Jóhannessonar forseta á fundi með nemendum Menntaskólans á Akureyri í síðustu viku rötuðu í dag í erlenda fjölmiðla. Nokkrir miðlar hafa slegið því upp að íslenski forsetinn vilji banna ananas sem álegg á pítsur. Skömmu eftir að sú umfjöllun erlendu miðlanna hófst birti forsetinn yfirlýsingu á ensku og íslensku „í stóra pítsumálinu“ um að hann hefði hvorki völd né vilja til að setja lög sem banni það sem honum mislíkar.

Fréttavefurinn Vísir greindi frá því í síðustu viku að forsetinn hefði lýst því yfir að hann væri alfarið á móti ananas á flatbökum og að ef hann gæti myndi hann setja lög sem myndu banna ananas sem álæti á flatbökunum. Tekið var fram að þetta og fleiri svör hans við spurningum nemenda hefðu verið í léttari kantinum.

Erlendu miðlarnir tóku við sér í dag og í nótt. Þeirra fyrstur var fréttavefur CNN sem sagði frá ummælum forsetans upp úr miðnætti að íslenskum tíma. Nokkrir miðlar hafa tekið málið upp, þar á meðal hinn breski Metro sem sá ástæðu til að taka fram að það væri forseti landsins Íslands en ekki verslanakeðjunnar Iceland sem talaði fyrir þessu banni. Einnig vefur breska Esquire sem og Gizmodo.

Síðdegis birti Guðni Th. Jóhannesson forseti svo yfirlýsinu á Facebook-síðu sinni í „stóra pítsumálinu“ eins og hann kallar það, eða „the pizza-controversy“ á ensku. Guðni segir að þó sér finnist ananas ekki góður á pítsu finnist honum gott að hafa ekki þau völd að geta bannað fólki að setja ananas á pítsuna sína. „Ég myndi ekki vilja gegna þessa embætti ef ég gæti sett lög sem bönnuðu það sem mér mislíkar,“ segir Guðni en tekur fram að hann mæli með fiskmeti á pítsuna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV