Píratar og Vinstri græn lækka flugið

15.09.2016 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fylgi Pírata og Vinstri grænna minnkar um nærri þrjú prósentustig og fylgi Viðreisnar eykst um nærri tvö prósentustig, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins með 25,5% fylgi.

Könnunin var gerð dagana 31. ágúst til 14. september og má sjá nokkrar breytingar á fylgi flokkanna í aðdraganda kosninga.

Helsta breytingin er að fylgi Pírata og Vinstri grænna minnkar. Píratar mælast nú með 23,1%, en voru með 26% í síðustu  könnun fyrir mánuði og fylgi Vinstri grænna mælist 13,5%, en var 16% síðast. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur flokka með 25,5%, sem er aðeins minna en í síðustu könnun. Viðreisn bætir við sig milli kannanna og mælist nú með 12,2%, það er tæpum tveimur prósentustigum meira en síðast en telst ekki tölfræðilega marktækt. Framsóknarflokkurinn mælist með 9,4%, Samfylkingin með 8,8% og Bjort framtíð með 2,9% Aðrir flokkar og framboð fá samanlagt 4,6%, sem er aukning upp á nærri fjögur prósentustig. Fylgið milli þeirra skiptist þannig að 2% myndu kjósa Íslensku þjóðfylkinguna, 1,3% Dögun, 0,7% fylgja Alþýðufylkingunni að málum og hálft prósent segjast myndu kjósa Flokk fólksins. 

Einnig var spurt um fylgi við ríkisstjórnina og reyndist það nánast óbreytt frá síðustu könnun, eða rúmlega 38%.

Tæplega 11% tóku ekki afstöðu í könnuninni eða neituðu að gefa upp afstöðu sína og nærri 7% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa til Alþingis í dag.

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 31. ágúst til 14. september 2016. Heildarúrtaksstærð var 4.204 og þátttökuhlutfall var 55,9%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,7-1,9%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi