Píratar náðu þremur mönnum á þing. Birgitta Jónsdóttir, kapteinn flokksins, segist afar þakklát fyrir stuðninginn. Þetta sé í raun söguleg stund því píratar, sem eru alþjóðleg hreyfing, hafa ekki áður náð fulltrúum inn á þjóðþing.
Þingmenn pírata eru Birgitta Jónsdóttir úr Suðvesturkjördæmi, í Jón Þór Ólafsson í Reykjavíkurkjördæmi suður og Helgi Hrafn Gunnarsson í Reykjavíkurkjödæmi norður.
„Við erum ofboðslega þakklát fyrir traustið,“ segir Birgitta. Nóttin var spennandi fyrir pírata því það réðst ekki fyrr en á lokametrunum hvort þeir næðu örugglega inn á þing.
„Við erum spennt fyrir því að geta farið að vinna að stefnumálum okkar og ég veit að það eru einstaklingar þarna inni á Alþingi sem við getum unnið vel með. Þetta er passlegur þingmannafjöldi hjá okkur til að við getum þroskast.“
Tveir nýir flokkar náðu inn á þing, Píratar og Björt framtíð. Björt framtíð er með sex þingmenn.