Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Píratar kæra kosningarnar aftur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Píratar í Reykjavík hafa að nýju lagt fram kæru til sýslumanns vegna nýafstaðinna borgarstjórnarkosninga. Þeir telja að úthlutun listabókstafsins Þ, þeirra gamla bókstafs, til Frelsisflokksins gæti hafa valdið spjöllum á kosningunum. Píratar lögðu fram sambærilega kæru fyrir kosningar en henni vísaði sýslumaður frá vegna þess að ekki er hægt að kæra kosningar fyrr en þær eru afstaðnar.

Mbl.is greindi fyrst frá. Nýja kæran hvílir á sama grunni og sú fyrri, en er með ítarlegri rökstuðningi. Undir hana skrifa Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, nýkjörnir borgarfulltrúar flokksins, og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, stjórnarformaður Pírata í Reykjavík.

Píratar telja að úthlutun listabókstafsins Þ til Frelsisflokksins sé óheppileg af tveimur ástæðum: annars vegar gætu einhverjir sem kusu utan kjörfundar hafa ritað Þ á kjörseðilinn með það að markmiði að kjósa Pírata, sem notuðu bókstafinn í síðustu sveitarstjórnarkosninum 2014, og hins vegar séu Þ og P, núverandi listabókstafur Pírata, mjög líkir og auðvelt að villast á þeim séu þeir misritaðir smávægilega.

„Okkur finnst þetta mjög ruglandi fyrir kjósendur og þetta verður vandamál þegar kemur að vafaatkvæðum sem renna til Þ eða P,“ segir Dóra Björt. „Í síðustu Alþingiskosningum fengu Píratar öll Þ-atkvæðin, en núna var það auðvitað ekki hægt.“

„Við gagnrýnum að það sé verið að útdeila bókstafnum til annars flokks strax í næstu kosningum,“ segir hún. Hún segir að markmiðið sé ekki að láta ógilda kosningarnar, heldur vekja athygli á ólíðandi vinnubrögðum við framkvæmd kosninga.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV