Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Píratar fjórfalt stærri en Samfylkingin

01.02.2016 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Fylgi Samfylkingarinnar hefur sjaldan eða aldrei verið lægra en nú og fylgi Bjartrar framtíðar er með minnsta móti samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Píratar mælast með mest fylgi tíunda mánuðinn í röð.

Gallup mældi fylgi flokka í janúar. Píratar mælast enn stærstir flokka. 35,3% styðja þá nú. Fylgissveiflan til Pírata hófst fyrir ári en síðan þá hefur fylgi þeirra hæst farið í tæp 36% hjá Gallup. Píratar fengu 5,1% í þingkosningunum 2013.

Fylgi ríkisstjórnarflokkanna nokkuð stöðugt

Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú næst stærstur - 24,4% styðja hann. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á svipuðu róli í mælingum Gallup síðan í ágúst en þá mældist hann með 21,6%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins var 26,7% í þingkosningunum 2013.

12% styðja Framsóknarflokkinn en það er jafn mikið fylgi og í síðustu tveimur mælingum Gallup. Framsóknarflokkurinn hefur mælst með um það bil 12% síðan sumarið 2014 en flokkurinn hlaut 24,4% í þingkosningunum 2013.

VG stöðugir en Samfylking og BF í djúpri lægð

10,8% styðja Vinstri græn en flokkurinn hefur mælst með 9-12% síðasta árið. VG fengu 10,9% í alþingiskosningunum 2013.

Fylgi Samfylkingarinnar heldur áfram að síga og mælist nú 9,2%. Það er litlu minna fylgi en Samfylkingin mældist með í ágúst, síðastliðnum, en flokkurinn hefur ekki mælst með minna fylgi frá stofnun. Fram hefur komið að Samfylkingin hafi mælst með minna fylgi í maí 1998 en sú mæling er ósambærileg enda símakönnun þar sem ekki voru gefnir valkostir. Því lýstu sumir stuðningi við þá flokka sem seinna sameinuðust í Samfylkingunni og 6,6% lýstu stuðningi við sameinað framboð.

Flokkurinn fékk 12,9% í kosningunum 2013 og jók fylgi sitt í könnunum fram til loka árs 2014 þegar hann mældist með um 20%. Síðan þá hefur fylgi flokksins hrunið en á sama tíma hefur fylgi Pírata vaxið.

Hið sama má segja um Bjarta framtíð sem nú mælist með 3,6% og væri nokkuð frá því að ná mönnum á þing ef kosið yrði í dag. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með hjá Gallup en Björt framtíð fékk 8,2% í kosningunum 2013. Í mars, 2014, mældist Björt framtíð með 17,5% fylgi en síðan þá hefur stuðningurinn horfið, sérstaklega eftir lok árs 2014.

4,7% sögðust styðja aðra flokka eða framboð. 

37,5% kjósenda styðja ríkisstjórnina - nokkru fleiri en samanlagt styðja ríkisstjórnarflokkana. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist aðeins einu sinni meiri á síðasta ári.

Ólíkar niðurstöður kannana

Niðurstaða Gallup er nokkuð frábrugðin niðurstöðum nýlegra kannana MMR og Fréttablaðsins. Þannig mældust Píratar með nærri 42% fylgi hjá Fréttablaðinu og nærri 38% hjá MMR. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 19,5% hjá MMR en 23,2% í Fréttablaðinu. Rétt er þó að hafa í huga að um ólíka aðferðafræði er að ræða og misjafnlega stór úrtök og þar af leiðandi misjafnlega nákvæmar niðurstöður.

Könnun Gallup var gerð dagana 7. til 31. janúar. 4281 voru í úrtaki Gallup en svarhlutfallið var 58,8%. Af þeim tóku 80,5% afstöðu til flokka, 10,7% tóku ekki afstöðu eða neituðu að svara og 8,8% sögðust ætla að skila auðu eða ekki kjósa. Meira en 2000 manns tóku því afstöðu til flokkanna og eru vikmörkin á fylgi við flokkana á bilinu 0,8-2,1%.