Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Píratar felldu framboðslista í NV-kjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Píratar í Norðvesturkjördæmi hafa ákveðið að staðfesta ekki þann framboðslista sem varð útkoman úr prófkjöri flokksins í ágúst. Þetta varð ljóst nú síðdegis. 272 greiddu atkvæði, þar af 153 gegn staðfestingu listans.

Í samtali við fréttastofu segir Herbert Snorrason í kjördæmisráði Pírata í Norðvesturkjördæmi að nú taki við nýtt prófkjör, þar sem allir Píratar á landinu taki þátt. Ráðið fundar um framhaldið í kvöld og þá kemur í ljós hvenær prófkjörið fer fram.

Þórður Guðsteinn Pétursson, sem kosinn var efstur á lista í síðasta prófkjöri var umdeildur og sakaður um að hafa smalað kjósendum, en slíkt er bannað samkvæmt reglum Pírata. Hann braut þó ekki reglur samkvæmt úrskurðarnefnd flokksins, þar sem reglurnar voru settar eftir að smölunin átti sér stað. Ekki hafi þó verið deilt um að Þórður hafi smalað kjósendum. Hann greindi frá því á Facebook að hann hefði beðið fimm systkini sín og um 20-30 aðra um að skrá sig í flokkinn til að kjósa hann.

Í athugasemdum, sem meðlimir Pírata geta skráð með sínu atkvæði í kosningakerfi flokksins, er það áberandi að þeir sem hafi kosið gegn staðfestingu listans gerðu það vegna smölunar Þórðar. Bæði segjast þeir gera það beint vegna hennar en einnig óbeint, þar sem listinn þurfi að hafa fullt og óskorað traust flokksmanna.