Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Pia hér í krafti embættisins en ekki skoðana

18.07.2018 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
„Hún er ekki boðin hingað sem einstaklingur eða stjórnmálamaður og þaðan af síður vegna skoðana sinna. Hún er forseti danska þingsins og er hérna í krafti embættis síns,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.

Alþingi kemur saman til  hátíðarfundar á Þingvöllum í dag í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Pia Kjærsgaard, forseti danska Þjóðþingsins ávarpar fundinn og hefur þátttaka hennar verið gagnrýnd. Þingmenn Pírata ætla að sniðganga fundinn.

„Við skulum minnast þess að þetta voru samningar milli þjóðanna og þjóðþingin léku þar lykilhlutverk. Þannig að það er forseti danska þingsins fyrir hönd gagnaðila að sambandslagasamningnum sem á þar í hlut en ekki einstaklingurinn Pia Kjærsgaard og mér þykir miður að fólk sé að blása upp málið á öðrum forsendum en þeim,“ segir Steingrímur. 

Fundur Alþingis á Þingvöllum hefst klukkan 14 og er eitt mál á dagskrá, sem er þingsályktunartillaga fomanna allra stjórnmálaflokka á Alþingi um verkefni í þágu barna og ungmenna og um rannsóknir er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins og að byggt verði nýtt hafrannsóknaskip. 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að nokkrir erlendir gestir verði viðstaddir fundinn, en þeir eru forsetar norrænu þjóðþinganna og Eystrasaltsríkjanna sem og fulltrúar Færeyja, Grænlands og Álandseyja. Pia Kjærsgaard, forseti danska Þjóðþingsins, ávarpar fundinn. Hún er stofnandi og fyrrverandi formaður Danska þjóðarflokksins og hefur verið afar umdeild vegna andstöðu sinnar við innflytjendur.

Guðjón S. Brjánsson fyrsti varaforseti Alþingis sagði í samtali við fréttastofuna að aðkoma Kjærsgaard hafi verið kynnt og rædd í forsætisnefnd og samþykkt án athugasemda. Sjálfur sagðist hann frekar hafa viljað að einhver annar en Kjærsgaard yrði fulltrúi danska þingsins á fundinum.

Gert er ráð fyrir að almenningur geti verið viðstaddur fundinn og hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar með umferðina. Það er kunnara en frá þurfi að segja að sumarið hefur verið vætusamt sunnanlands, en forseti Alþingis er bjartsýnn varðandi fundinn.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV