Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Philip Green sakaður um kynferðislega áreitni

25.10.2018 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Breski kaupsýslumaðurinn Philip Green var í breska þinginu í dag sagður vera sá kaupsýslumaður sem sakaður er í fjölmiðlum um kynferðislega áreitni.

Telegraph greindi frá því í gær að lögbann hefði verið sett á fyrirhugaða umfjöllun blaðsins um ónefndan kaupsýslumann. Blaðið hefði unnið að fréttinni í átta mánuði. 

Peter Hain í bresku lávarðadeildinni nafngreindi Green í þinginu í dag og sagði að það væri skylda hans að gera það í ljósi þess hve alvarleg og ítrekuð meint brot Greens virtust vera. Málið varðaði almannahag.

Telegraph birti grein þar sem ónefndur kaupsýslumaður var sakaður um að sýna starfsfólki sínu kynþáttafordóma og beita það kynferðislegri áreitni. Lögbann kom í veg fyrir að blaðið gæti nafngreint manninn. Lögbanninu hefur ekki verið aflétt en yfirlýsing Hains hefur verið birt í fjölmiðlum í Bretlandi.

Telegraph greindi frá því að í viðtölum við fimm starfsmenn mannsins hafi komið fram að greiddar hefðu verið umtalsverðar upphæðir fyrir þagmælsku. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV