Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

PETA gefur heimilislausum pelsa

23.01.2017 - 21:44
PETA gefur Fjölskylduhjálpinni pelsa til að gefa bágstöddum Íslendingum.
 Mynd: RÚV
Dýraverndunarsamtökin PETA hafa gefið Fjölskylduhjálp Íslands tvö hundruð pelsa sem á að úthluta heimilislausum Íslendingum. Fulltrúi PETA segir þetta gert til að framleiðslan nýtist þeim sem þurfi á henni að halda.

Pelsarnir komu til landsins í dag, og með þeim einn af þeim fulltrúum Peta sem berjast fyrir vernd á dýrum. Þó að það hljómi undarlega að dýraverndarsamtök, sem mótmæla slæmri meðferð á dýrum við framleiðslu á pelsum gefi þessar sömu flíkur, er á því rökrétt skýring. „Félagar í samtökunum sem hafa séð rannsóknir okkar á ótal loðdýrabúum í Evrópusambandslöndunum hafa skipt um skoðun. Þeir vilja ekki sóa lífum þessara dýra,“ segir Sonul Badiani-Hamment, baráttukona hjá PETA.

Samtökin fá þúsundir pelsa árlega frá fólki sem vill ekki nota þá leikur. Fátækir um allan heim hafa notið góðs af þeim, meðal annars sýrlenskir flóttamenn. En nú er komið að Íslendingum. „Það er reyndar töluverður fjöldi heimilislausra hér, um 200 manns. Svo að okkur datt í hug að aðstoða allt heimilislaust fólk á Íslandi.“

Ásgerður Jóna Flosadóttir starfandi formaður Fjölskylduhjálpar Íslands fagnar gjöfinni. „Þetta fólk úti hafði samband við mig um mánaámótin nóvember-desember og buðu þetta. Og mér fannst þetta mjög frábært og ég er þakklát PETA fyrir að koma og hjálpa okkur að aðstoða aðra.“

Þessar flíkur eru býsna verðmætar enda mikið sóst eftir að klæðast þeim, sérstaklega af ríku fólki. Það er þó ekki þannig með þessar flíkur því það er búið að merkja þær sérstaklega. „Við viljum ekki að þessir pelsar verði seldir áfram því að þeir einu sem geta mögulega verið í þeim er fólk sem er í mikilli þörf og myndi annars láta lífið í nístingskuldanum úti," segir Sonul.

Pelsarnir verða afhentir á miðvikudag í Reykjavík og fimmtudag í Reykjanesbæ, auk þess sem hluti af þeim verður sendur út á land. Ásgerður Jóna segir að velja verði úr milli þeirra sem fá mataraðstoð, þar sem staða sumar sé verri en en annarra.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV