Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Persónuvernd skoðar síðustu Alþingiskosningar

29.11.2018 - 13:33
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Persónuvernd hóf frumkvæðisathugun fyrir nokkru á því hvort kosningarnar 2016 og 2017 hafi farið rétt fram. Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar segir að sterkar vísbendingar séu um að skoða þurfi framkvæmd kosninganna. Persónuverndarsamtök í Evrópu hafa vaxandi áhyggjur af áhrifum samfélagsmiðla á lýðræðið.

Neytendasamtök í Noregi kæra Google 

Neytendasamtökin í Noregi hafa kært Google til Persónuverndar Noregs fyrir að safna upplýsingum um fólk ólöglega. Neytendasamtökin vitna í nýja rannsókn sem sýnir að Google notar villandi hönnun og upplýsingar til að plata notendur til að leyfa að fylgst sé með þeim.
 
Helga segir að norsku Neytendsamtökin segja að forrit Google knýi fólk til að deila upplýsingum um sig langt umfram það sem fólk geri sér grein fyrir. 

„Og það felst m.a. í því að leyfa staðsetningu á sér og það má segja að það sé komin ákveðin frekja í forritin sem þau nota vegna þess að aftur og aftur er spurt að þessu jafnvel þótt að við upphaflegu stillinguna í  símanum hafi fólk ákveðið að leyfa ekki þennan aðgang.“ 

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Neytendasamtökunum og í myndbandinu sem fylgir með henni að sex sinnum á mínútu kallar forrit í símanum eftir staðsetningarhnitum á öllum snallsímum sem leyfa staðsetingu svokallaða location history. 

 

Goggle gæti átt von á milljarða sektum 

Helga segir að í sumar hafi tekið gildi ný persónuverndarlöggjöf á Evrópusvæðinu sem áttu að koma í veg fyrir að þetta gæti gerst

„Þannig að nú er alveg ljóst að búið er formlega að leggja fram kvörtun  yfir þessari vinnslu persónuupplýsinga hjá Google. Og nú þurfa þeir að svara fyrir hvort þeir telji sig hafa fengið fullnægjandi samþykki fyrir frá þeim einstaklingum sem hér eru undir og hvort að fræðsla þeirra hafi verið nægileg.  Ef ekki þá má í rauninni gefa sér að þeir gætu verið að horfa fram á miljarða sektir.“

Google forritið virðist fylgjast með fólki mjög nákvæmlega eins og sjá má á myndbandi sem Neytendasamtökin sendu frá sér. Þar sést að forritið fylgist með fólkinu heima hjá sér hversu lengi viðkomandi er á klósettinu, á hvaða hæð það er, hvenær það fer í kirkju o.s.frv.

Til hvers notar Google þessar upplýsingar?

„Það er nú þannig að verðmætustu fyrirtækin í heiminum í dag eru ekki lengur olíufyrirtæki það eru gagnafyrirtæki, tæknifyrirtæki, tæknirisar sem búa yfir upplýsingum um okkur. Þessar upplýsingar eru besta söluvaran í dag annað hvort fyrir fyrirtækin að selja beint eða leyfa öðrum aðgang að hluta upplýsinga.“ 

Söfnun persónuuplýsinga áhyggjuefni fyrir Íslendinga

Helga segir á Íslendingar hafi ástæðu til að hafa áhyggjur. Söfnun persónuupplýsinga sé sérstakt áhyggjuefni fyrir Íslendinga.

„Ég held að við verðum bara að horfast í augu við þá staðreynd að það hafa átt sér stað kosningar á Íslandi sem þarf að kanna að hafi farið rétt fram. Hvaða kostingar voru það?  Við erum að tala um þingkosningar 2016 og 2017. Þannig að það má segja að það eru sterkar vísbendingar um að það sé ýmislegt sem þegar þurfi að skoða í framkvæmd kosninga sem þegar hafa átt sér stað á Íslandi.  Er Persónuvernd að skoða kosningarnar út frá þessu núna, þessar kosningar sem þú nefndir?  Já  Persónuvernd hóf frumkvæðisathugun fyrir nokkru á því hvernig fyrirkomulag var við þessar kosningar. Þetta er mál sem er í farvegi hjá okkur.“ 

Helga segir að markaðsetning á netinu hér á landi hafi náð ákveðnum hæðum og það þurfi að kanna. 

Hvernær eigum við von á því að fá að vita meira um þessa rannsókn sem þið eruð að gera á kosningum hér?  „Við reynum eins og áður að skila frá okkur niðurstöðu hér eins fljótt og mögulegt er.“ 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV