Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Persónuleiki hefur meira að segja en kyn

29.03.2014 - 20:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Kanadískur fjármálasérfræðingur segir að verðbréfaeign ráðist af persónuleika fremur en kynferði. Mismunandi ástæður liggi þó að baki hlutabréfakaupum karla og kvenna. Þá vitneskju þurfi að nýta til að fjölga konum í hópi fjárfesta.

Barbara Stewart er sjóðsstjóri hjá Cumberland Private Wealth Management í Toronto. Hún hefur rannsakað hvernig konur byrja að fjárfesta og í hverju. Hún segir ekki mikinn mun á því hvaða hlutabréf karlar og konur kaupi. Persónuleikinn ráði mestu og hvort fólkið sé áhættusækið.

Ólíkt tal en eignasafnið ámóta
„Þau tala kannski á ólíkan hátt um fjárfestingarnar og hugsa kannski á mismunandi hátt um ákvarðanir um fjárfestingar en í raun er eignasafnið og kaupin og fjárfestingarnar mjög ámóta hvort sem fjárfestirinn er karl eða kona,“ segir Stewart. Hún segir hins vegar að of fáar konur kaupi hlutabréf. Hún hafi í nýrri rannsókn spurt sigursælar kaupsýslukonur hvar þær hafi byrjað. Þær hafi flestar sagst hafa lært af reynslusögum fyrirmynda og fjölskyldumeðlima frekar en kennslubókum. „Við getum ályktað út frá því að það sé þannig sem konur vilja fræðast  og það hefur ennfremur sannað sig að það dugi mjög vel. Af hverju þá ekki að reyna að fella þá þekkingu að fjármálaiðnaðinum?“

Fjárfestingar endurspegli gildismat
Núna sé hins vegar millibilsástand þar sem togast á hefðbundin fjárfestingarstefna og hugmyndir og hugsjónir kvenna. Þetta þurfi að renna saman svo að fleiri konur fjárfesti á markaði þannig að allir hagnist. Konur fjárfesti frekar í því sem skipti þær máli. „Verji maður til dæmis miklu af fé sínu á hverju ári í ákveðna smásöluverslun, fataverslun, vill maður kannski kaupa hlutabréf í fyrirtækinu og endurspegla á þann hátt gildismat sitt. Svo getur þetta farið á ýmsan veg en það mikilvægasta er að við miðlum á þann hátt að það hafi þýðingu fyrir konur og oft vekur sú aðferð við miðlun með frásögnum eða á annan forvitnilegan háttáhuga hjá körlum líka.“