Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Persónukjör í Dölum og Reykhólahreppi

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Engir framboðslistar höfðu borist kjörstjórn í Dalabyggð þegar framboðsfrestur vegna sveitarstjórnarkosninga rann út á hádegi á laugardag. Því verða kosningarnar óhlutbundnar og fram fer persónukjör, þar sem nánast allir kjósendur sveitarfélagsins verða í kjöri. Sama er uppi á teningnum í Reykhólasveit.

Þær Halla Sigríður Steinólfsdóttir í Ytri-Fagradal og Ingveldur Guðmundsdóttir í Stórholti, sem báðar hafa setið í sveitarstjórn Dalabyggðar um 12 ára skeið, hafa beðist undan endurkjöri, og var erindi þeirra samþykkt. Í sveitarstjórnarkosningum 2014 var einnig viðhaft persónukjör í Dalabyggð.

Hjá nágrönnum Dalamanna í Reykhólahreppi var heldur enginn framboðslisti lagður fram áður en framboðsfrestur rann út, sem þýðir að þar verður líka persónukjör, eins og verið hefur um nokkurt skeið í þeirri sveit. Þrír sitjandi sveitarstjórnarmenn  skorast undan endurkjöri, þau Vilberg Þráinsson á Hríshóli, Áslaug B. Guttormsdóttr á Mávavatni og Sandra Rún Björnsdóttir á Reykhólum. Gústaf Jökull Ólafsson, einnig á Reykhólum, gefur heldur ekki kost á sér, en hann hafði setið í sveitarstjórn í þrjú kjörtímabil samfleytt þegar síðast var kosið. Það þýðir að hann getur skorast undan kjöri jafn lengi.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum, árið 2014, voru kosningar óhlutbundnar í 18 sveitarfélögum, og í þremur til viðbótar var aðeins einn listi í framboði og því sjálfkjörið í sveitarstjórn.