Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Perlan varla seld í bráð

18.04.2012 - 12:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur segir að ekki verði teknar fyrir skipulagsbreytingar í tengslum við Perluna fyrr en eftir hugmyndasamkeppni um Öskjuhlíðina sem verði líklega í haust.

Allir sem boðið hafa í Perluna vilja skipulagsbreytingar í formi viðbygginga. Því er óvíst hvort Orkuveitunni takist að selja Perluna á árinu.

Orkuveitan þarf að standa straum af háum afborgunum af lánum, samtals nærri 45 milljörðum á þessu ári og því næsta. Veitan hefur meðal annars brugðist við þessu með því að reyna að selja eignir. Perlan var boðin til sölu og vildu hæstbjóðendur greiða fyrir hana tæplega 1,7 milljarða króna. Þeir vildu byggja við Perluna.

Upprunalega vildu þeir reisa þar hótel og baðstað en breyttu síðan áformunum og óskuðu eftir samþykki fyrir því að fá að byggja náttúruminjasafn og baðstað. Skipulagsráð féllst ekki á hugmyndina, segir Páll Hjaltason, formaður ráðsins. 
Henni hafi verið vísað inn hugmyndasamkeppni um Öskjuhlíðina sem farið verði í á árinu.

Páll segir að öðrum tillögum og óskum um svæðið hafi verið vísað í samkeppnina, þar á meðal ósk Skógræktarfélags Reykjavíkur um fræðsluaðstöðu og svo beiðni um að fá að reisa hótel við Keiluhöllina. Páll segir að unnin verði grunnur að hugmyndum og óskum varðandi Öskjuhlíðina og síðan verði opnað fyrir hugmyndasamkeppni um skipulag svæðisins.

Páll segir að samkeppnin verði haldin einhvern tímann á þessu ári. Líklega með haustinu. Varðandi sölu á á perlunni segist Páll horfa á málið út frá sjónarmiðum skipulagsmála, en það sé óháð öllu eignarhaldi.

Ekki náðist í forstjóra Orkuveitunnar við gerð þessarar fréttar.