Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Pence miklu dýrari en Merkel og félagar

13.09.2019 - 07:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kostnaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna sjö klukkustunda heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í síðustu viku, var þrefaldur á við tveggja daga heimsókn Angelu Merkel kanslara Þýskalands og allra forsætisráðherra Norðurlandanna í lok ágúst. Þetta kemur fram í svari lögreglunnar við fyrirspurn fréttastofu. 

Mikill viðbúnaður var í kringum opinbera heimsókn Pence hingað til lands fyrr í mánuðinum. Götum í miðborginni var lokað, og fjöldi lögreglumanna var saman kominn við Höfða, þar sem Pence hélt fundi með Guðna Th. Jóhannessyni forseta, Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni. Eins mátti sjá leyniskyttur á húsum í nágrenni Höfða.

Alls nam heildarkostnaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna heimsóknar Mike Pence rúmlega fjórtán milljónum 14,1 milljón króna. Þá er ótalinn kostnaður við vinnuframlag lögreglumanna embættanna á Suðurlandi og Norðurlandi Eystra, auk ferða- og gistikkostnaðar þeirra.

Nokkrum dögum áður var Angela Merkel, Þýskalandskanslari, hér á landi ásamt forsætisráðherrum allra Norðurlandanna, lögmanni Færeyja og formanni landsstjórnar Grænlands og landsstjóra Álandseyja. Þau voru í um tvo sólarhringa hér á landi. Þá vakti nokkra athygli þegar Merkel arkaði um miðborgina og skellti sér í verslunarleiðangur. Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nam heildarkostnaður hennar vegna heimsóknar þjóðarleiðtoganna í lok ágúst um 5,5 milljónum króna, eða rétt ríflega þriðjungi kostnaðarins vegna Pence.