Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Páskaeggin ódýrust í Bónus – allt að 57% munur

23.03.2018 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Allt að 57% verðmunur var á páskaeggjum á milli verslana í verðlagskönnun ASÍ í matvöruverslunum 20. mars. Ódýrustu eggin var langoftast að finna í Bónus en þau dýrustu oftast í Hagkaup. Oftast var lítill munur á verði páskaeggja í Bónus og Krónunni.

Bónus var með ódýrustu eggin í 28 tilfellum af 32 en Hagkaup með þau dýrustu í 19 tilfellum af 32. Í 25 tilfellum af 32 munaði aðeins einni krónu á verði hjá Bónus og Krónunni. Mesti munurinn var á eggjum frá Freyju: Freyju Ríseggi, Ríseggi með saltkaramellubragði, draumaeggi og draumaeggi með lakkrís, öllum númer 9. Í öllum þessum tilvikum voru eggin ódýrust í Bónus á 2.129 krónur en dýrust í Hagkaup á 3.399. Þar munur 1.240 krónum, eða 57%.

Þá segir í tilkynningu ASÍ að verðmerkingum hafi verið talsvert ábótavant í Hagkaup. Í átta tilvikum hafi páskaegg þar verið óverðmerkt. Ekkert af eggjunum sem könnuð voru hafi verið fáanlegt í verslun Víðis í Skeifunni eða í Costco.

ASÍ kannaði einnig verð á öðrum páskamat og komst að því að allt að 127% munur væri á kjötverði á milli verstala. Mesti munurinn var á frosnum kjúklingabringum. Þær kostuðu minnst 1.189 krónur kílóið í Hagkaup en mest 2.698 krónur kílóið í Víði.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV