Páll Óskar á víkingaskipi í Gleðigöngunni

27.07.2015 - 13:42
Mynd með færslu
Samkvæmt rannsókn SPI þykja réttindindi samkynhneigðra sjálfsagðari hér en víða annarstaðar Mynd: RÚV
Páll Óskar ætlar að „sigla“ á víkingaskipi í Gleðigöngunni í ár. Atriðið kallar hann Landnámsdrottingarnar. Poppstjarnan vill enga bera rassa í ár - telur það skjóta skökku við að girða niður um sig og biðja samtímis um virðingu.

Þetta kemur fram á vefsíðu Gay Iceland. Þar segist popstjarnan vilja með atriði sínu vekja athygli á þeim sem í gegnum aldirnar, allt frá landnámi, voru þögguð niður og votta þeim virðingu.

Víkingaskip Páls Óskars mun sigla undir fána samkynheigðra og á því verða átta landnámsdrottningar. Hann segir að þótt lítið sem ekkert sé að finna um samkynhneigða frá víkingaöld hafi „drottningar“ verið hér allan tímann. Víkingaskipið sé fyrir þær og allt fólkið sem var þagað í hel.

Atriði Páls Óskars hafa yfirleitt vakið mikla athygli - hún var til að mynda í níu metra háum svan í fyrra sem var vísun í ævintýrið af Litla ljóta andarunganum. Fyrir fimm árum var hann í stærsta kjól Íslandssögunnar á eldrauðum trukk. 

Páli Óskari segir í viðtalinu að það sé mikilvægt að komast hjá því að hafa styrktaraðila í gleðigöngunni - auglýsingar rýri pólitíkina. Honum finnst líka mikilvægt að þar séu engir berir rassar eða brjóst.

Ekki eigi að sýna fimm ára börnum, sem koma á gleðigönguna með ömmu sinni, bera rassa. Það sé mikilvægt að dagurinn sé fyrir alla, jafnt börn sem fullorðna - það skjóti skökku við að girða niður um sig og krefjast um leið virðingar. 

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi