Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Páley segir þrýsting listamanna engu breyta

22.07.2016 - 15:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Páley Borgþórsdóttir
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir að afstaða sín sé óbreytt þrátt fyrir þrýsting tónlistarmanna og lögreglan ætli ekki að upplýsa fjölmiðla um hugsanleg kynferðisbrot. Hún leggur áherslu á að öll mál verði upplýst að því gefnu að það skaði ekki rannsóknarhagsmuni eða hagsmuni þolenda.

„Þegar að rannsóknarhagsmunir eru tryggðir og búið að koma þolanda í skjól - og hann er jafnvel búinn að koma sér sjálfur í ákveðið skjól og hefur rætt við sína nánustu - þá getum við tilkynnt um málin sem hafa komið hér upp,“ segir Páley í samtali við fréttastofu.

Hún segir að óháð því hvaða pressa kemur á embættið þá sé ekki hægt að víkja frá þessu. „Við getum ekki undir nokkrum kringumstæðum fórnað rannsóknarhagsmunum í kynferðisbrotamálum út af einhverjum þrýstingi, það er fráleitt.

Ég held að tónlistarmennirnir skilji það og það hefur ekki verið þeirra krafa að fórna rannsóknarhagsmunum. Ég hitti þá nokkra úr þessum hópi í gær og þeir skilja alveg hvað felst í þessum rannsóknarhagsmunum og þeir átta sig á því að það stendur ekki til að gefa ekki upp upplýsingar heldur munum við veita upplýsingar þegar við getum það.“

Páley segir að umræðan undanfarið hafi verið byggð á þeim misskilningi að engar upplýsingar yrðu gefnar. „Það vill ekki nokkur maður, trúi ég, fórna rannsóknarhagsmunum í kynferðisbrotamáli þannig að við náum ekki geranda og getum ekki sannað og upplýst mál sem sakamálalög leggja okkur ríkar skyldur á, lögreglunni.“

En hvaða rannsóknarhagsmunum er fórnað með því að greina frá kærum og engu öðru?

„Þeir gætu verið og við höfum alveg upplifað að það hefur sett mál í uppnám hjá okkur. Það verður hringiða sem fer á stað. Brotaþoli fer jafnvel að finna til með gerandanum sem lendir í umfjölluninni og vill jafnvel ekki skýra frekar frá málinu, eða draga kæruna til baka og eitthvað slíkt.

Við erum líka að horfa í það að á fyrstu stigum þessa mála þá er lykilatriði fyrir okkur að fara í grunnrannsóknarvinnuna, finna vettvang og auðvitað finna geranda. Ótímabær tilkynning getur orðið til þess að vettvangurinn er horfinn, gerandinn er horfinn,“ segir Páley.