Páley aftur á borð umboðsmanns Alþingis

18.10.2016 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Páley Borgþórsdóttir
Lögreglustjóranum Vestmannaeyjum, Páley Borgþórsdóttir, var ekki heimilt að ráða í starf löglærðs fulltrúa hjá embættinu án þessa að auglýsa starfið. Þetta er álit umboðsmanns Alþingis eftir að kvartað var yfir ákvörðun lögreglustjórans. Í fyrra rataði sama starf á borð umboðsmanns en þá var álit hans að stjórnsýslulög hefðu verið brotin.

Brotið á andmælarétti umsækjanda 2015

Í fyrra barst umboðsmanni kvörtunin sem beindist meðal annars að því að umsækjanda í starfið hefði verið synjað um aðgang að upplýsingum annarra umsækjenda sem boðaðir voru í starfsviðtöl. Þá hafi upplýsingar sem Páley hafði aflaði um starf og starfstíma hans hjá öðru embætti lögreglustjóra ekki verið bornar undir hann. Það var álit umboðsmanns að þær upplýsingar hefðu getað haft verulega þýðingu við ráðninguna og því hafi lögreglustjóra verið óheimilt að taka ákvörðun út frá þeim án þess að bera þær undir þann sem sótti um starfið. Vísaði umboðsmaður þar í 13. grein stjórnsýslulaga, um andmælarétt.

Brot á auglýsingaskyldu 2016

Sá umsækjandi sem fékk starf löglærðs fulltrúa vann einungis í 8 mánuði hjá lögreglustjóra eða fram í miðjan mars á þessu ári. Samkvæmt upplýsingum lögreglustjórans lét starfsmaðurinn af störfum af persónulegum ástæðum. Því hefði þótt nauðsynlegt að fá fulltrúa í hans stað og starfslok hefðu borið að með skömmum fyrirvara. Ekki var talið nægur tíma til að auglýsa starfið og klára ráðningaferli í tæka tíð og því ráðið í starfið án auglýsinga. Vísaði Páley máli sínu til stuðnings að ekki þyrfti að auglýsa þar sem um afleysingastarf hefði verið að ræða.

Hvað er afleysing?

Niðurstaða í áliti umboðsmanns var sú að ekki hefði verið um að ræða afleysingu og því hafi lögreglustjóranum ekki verið heimilt að ráða í starfið án þess að auglýsa. Þau atvik sem falli undir afleysingu eigi við þegar starfsmaður er forfallaður frá starfinu og nauðsynlegt reynist að leysa hann af, til að mynda vegna orlofs, veikinda, barnsburðarleyfis eða námsleyfis, þegar gert er ráð fyrir að sá sem verið er að leysa af hefji aftur störf.

Hægt er að lesa álit umboðsmanns Alþingis hér

Gunnar Sigurðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi