Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Palestínumenn á Íslandi fagna

29.11.2011 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Palestínumenn sem búa hér á landi fögnuðu mjög þegar Alþingi samþykkti tillögu utanríkisráðherra um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar sagði um sögulega stund að ræða en í dag er alþjóðlegur samstöðudagur Sameinuðu þjóðanna með Palestínu.

Þrjátíu og átta þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu studdu tillöguna en þrettán þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lagði tillöguna fram og fagnaði niðurstöðunni mjög en hann er staddur í Moskvu og greiddi því ekki atkvæði á þingi í dag.

„Ísland er fyrsta ríkið í Vestur Evrópu sem stígur þetta skref. Ég vona að þetta verði fordæmi til dæmis Norðurlandanna að taka sömu ákvörðun og styðja Palestínu sem fullvalda, sjálfstætt ríki,“ segir Össur. Nú hafi  hann  stuðning Alþingis til að lýsa formlega yfir viðurkenningu Íslands. En áður en hann gerir það mun hann kanna afstöðu annarra ríkja.

„ Ég mun til dæmis skoða hug ýmissa Norðurlandaþjóða sem að ég tel að sé ekki víðs fjarri okkar afstöðu. En umfram allt þá skiptir það máli að þessi afstaða komi fram því að hún er mjög mikilvæg fyrir stöðu Palestínu,“ segir Össur.

Amal Tamimi sem situr á þingi fyrir Samfylkinginguna  segir að þetta sé sögulegur dagur.  „Ísland viðurkennir sjálfstætt Palestínuríki.  Ég gæti ekki verið stoltari af því að fá að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu,“ sagði Amal í dag.