Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Páfi setur biskup í bann vegna kynferðisbrota

22.07.2019 - 01:49
Mynd með færslu
Michael Bransfield og Frans páfi. Mynd: RÚV - EPA
Frans páfi hefur bannað Michael Bransfield, bandarískum fyrrverandi biskupi, að stjórna helgihaldi. Bransfield hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni og fjármálamisferli.

Bannið er ein af þeim refsingum sem páfi hefur gefið út á hendur Bransfield, sem var biskup í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Honum hefur einnig verið bannað að búa í biskupsdæminu. Bransfield sagði af sér í fyrra eftir að ásakanir á hendur honum komu fram. Í júní leiddi rannsókn kaþólsku kirkjunnar í ljós að ásakanirnar áttu við rök að styðjast.

Páfi hefur undanfarið gripið til harðra aðgerða gegn prestum og öðrum kirkjunnar þjónum sem gerst hafa sekir um misnotkun á börnum. Í febrúar svipti hann fyrrverandi bandaríska kardinálann kjóli og kalli.

Eftir hneykslið hóf kaþólska kirkjan vestanhafs úrbætur í samræmi við fyrirskipanir páfa. Nú er prestum skylt að tilkynna grun um misnotkun til Páfagarðs en áður var biskupum það í sjálfsvald sett hvort þeir hefðu rannsókn á slíkum brotum.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV