Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Páfi segir gagnrýnendur kirkjunnar vini kölska

21.02.2019 - 06:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Frans páfi segir þá sem gagnrýna kaþólsku kirkjuna ítrekað vera vini kölska. Þetta sagði hann á fundi með pílagrímum frá suðurhluta Ítalíu. Hann sagði að það ætti að fordæma opinberlega þá sem yfirgefa kirkjuna svo hægt sé að leiðrétta þá. Þeir sem dæmi kirkjuna án ástar, eins og hann kallar það, eru hins vegar tengdir djöflinum.

Guardian hefur eftir Frans páfa að enginn geti eytt öllu lífi sínu í að ásaka kirkjuna stöðugt. Þeir sem það geri séu vinir, í frændgarði og ættingjar myrkrahöfðingjans.

Ummælin lét páfinn falla degi fyrir fjögurra daga ráðstefnu 180 biskupa og kardinála í Vatíkaninu þar sem fjallað verður um hvernig taka skuli á umfangsmiklu kynferðisofbeldi innan kirkjunnar. Vatíkanið hefur lýst því yfir að vonir standi til að ráðstefnan um helgina verði til þess að viðsnúningur verði í þessum málum, en fórnarlömb presta og annarra starfsmanna segja kirkjuna hafa tekið illa á glæpum embættismanna.

Peter Isley, talsmaður fjölþjóðlegra regnhlífasamtaka aðgerðarsinna gegn ofbeldi klerkastéttarinnar, sagði blaðamönnum í gær að samtökin krefjist þess að Frans páfi sýni barnaníðingum í kaþólsku kirkjunni enga miskunn. Hann segir í sínum huga aðeins tvennt koma til greina, reka presta sem hafa brotið af sér og leysa biskupa og kardinála sem hylmdu yfir glæpi þeirra frá störfum.