Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Páfi líkir þungunarrofi við leigumorð

10.10.2018 - 11:19
epa07083080 Pope Francis waves during the weekly general audience in Saint Peter's Square, Vatican City, 10 October 2018.  EPA-EFE/ETTORE FERRARI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Frans páfi líkir þungunarrofi við það að ráða leigumorðingja til þess að leysa vandamál sín. Þetta kom fram í máli hans þegar hann ávarpaði mannfjölda í Vatíkaninu í dag.

Í ávarpi sínu fjallaði páfi um fimmta boðorðið: Þú skalt ekki morð fremja. Í því samhengi gerði hann þungunarrof að umtalsefni. Hann sagði þungunarrof vera það sama og eyða einhverjum. „Að losa sig við manneskju er líkt og að grípa til þeirra ráða að fá leigumorðingja til þess að leysa vandamál,“ sagði Frans páfi við þau sem voru mætt að hlýða á vikulegt ávarp hans í Vatíkaninu í dag.

Víða fjallað um þungunarrof

Þungunarrof hafa verið í brennidepli víðs vegar um heim á þessu ári. Undir lok síðasta mánaðar lagði velferðarráðuneytið fram drög að frumvarpi um ný lög þar sem þungunarrof verður heimilt fram að lokum 18. viku meðgöngu. Í dag er þungunarrof heimilt fram í 16. viku á Íslandi. Í lok maí samþykktu Írar í þjóðaratkvæðagreiðslu breytingu á stjórnarskrá þar sem banni við þungunarrofi verður aflétt. Í ágúst felldi öldungadeild argentínska þingsins lagafrumvarp sem hefði aukið rétt kvenna til þungunarrofs.