Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Páfi léttir páfaleynd af ofbeldi gegn börnum

epa08074100 Pope Francis (C) leads the Mass for the Philippine Community in the Saint Peter's Basilica at the Vatican City, 15 December 2019.  EPA-EFE/RICCARDO ANTIMIANI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Frans páfi segir sérstaka páfaleynd ekki eiga við um tilkynningar innan kaþólsku kirkjunnar um kynferðisbrot gegn börnum. Vill hann með þessu reyna að auka gegnsæi í slíkum málum. Hingað til hafa málin verið afgreidd innan kirkjunnar, að sögn til þess að vernda friðhelgi einstaklinganna sem brotið er gegn, auk orðspors þess sem sakaður er um brotið.

Leiðtogar kaþólsku kirkjunnar samþykktu að leggja páfaleyndina í þessum málum af á ráðstefnu í Vatíkaninu í febrúar. Í gær var loks lagt fram skjal þar sem leyndinni er aflétt, og þeir sem tilkynna um kynferðisbrot gegn sér geta nú greint fleirum frá því að þeir séu fórnarlömb. Eins verður þetta til þess að auðvelda lögreglu og öðrum dómsmálayfirvöldum að sækja upplýsingar frá kirkjunni í slíkum málum. Frans páfi breytti einnig skilgreiningu Vatíkansins á barnaklámi. Klám með börnum undir 18 ára flokkast nú sem barnaklám, í stað 14 ára áður.

Upprunalega diplómatísk leynd

Páfaleynd átti á sínum tíma að vernda mikilvægar upplýsingar á borð við samskipti Vatíkansins við sendiráð þess um heiminn. Í gegnum tíðina færðist leyndin svo yfir á dómsmál innan kirkjunnar, að sögn til að vernda friðhelgi fórnarlamba og þeirra sem sakaðir voru um glæpinn.

Þúsundir hafa stigið fram undanfarin ár og greint frá ofbeldi af hálfu presta kaþólsku kirkjunnar víða um heim. Þrýst hefur verið á Frans páfa að leita raunhæfra lausna. Samkvæmt nýju tilskipuninni á páfaleynd ekki lengur við um þá sem eru í embættum í páfagarði vegna mála er varða ofbeldi gegn börnum eða barnaklám. Eins eru vitni, meint fórnarlömb og einstaklingar sem greina frá ofbeldinu, ekki lengur bundin þagnareið.