Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Páfi hættir í lok mánaðar

11.02.2013 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Tilkynnt var í Páfagarði laust fyrir hádegið að Benedikt páfi XVI. ætli að segja af sér embætti þann 28. febrúar. Ástæðan er talin hrakandi heilsa páfans. Hann segist verða orðinn of gamall til að gegna páfaembættinu en hann verður 86 ára í apríl.

Það er afar óvenjulegt að páfi segi af sér og samkvæmt fróðustu mönnum hefur þetta ekki gerst um aldir, en páfar sögðu m.a. af sér árin 1296 og 1415.

Benedikt XVI. er Þjóðverji, fæddur 16. apríl 1927 og heitir Joseph Alois Ratzinger. Hann var kjörinn páfi 19. apríl 2005, 17 dögum eftir fráfall Jóhannesar Páls II. Benedikt var 78 ára þegar hann var kjörinn, elsti maðurinn sem kjörinn er páfi á síðari öldum. Ratzinger var virtur guðfræðingur áður en hann varð erkibiskup af München og kardináli árið 1977.

Hann kom til Íslands 1989, þá sem einn æðsti embættismaður kirkjunnar með Jóhannesi Páli öðrum  páfa. Árið 1981 skipaði Jóhannes Páll páfi II hann æðsta yfirmann þeirrar deildar kaþólsku kirkjunnar sem sér um að viðhalda rétttrúnaði. Hann var mótfallinn því að kirkjan slakaði á andstöðu við fóstureyðingar, getnaðarvarnir og fleira.

Val hans á nafninu Benedikt segir hann vera vísun til Benedikts XV. sem var páfi meðan á  fyrri heimsstyrjöldinni stóð og í heilagan Benedikt sem þykir sýna að honum þyki kirkjan standa höllum fæti og hann hefur reynt að rétta hlut hennar.