Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Páfabréf helgað umhverfismálum

22.06.2015 - 15:26
Mynd: EPA / ANSA
Innihald páfabréfs sem leit dagsins ljós í síðustu viku sætir nokkrum tíðindum en þar eru umhverfismál í brennidepli. Stefán Gíslason segir frá því í pistli sínum sem lesa má hér að neðan.

Síðastliðinn fimmtudag birtist páfabréfið sem áhugamenn um loftslagsmál hafa beðið með óþreyju síðasta hálfa árið.

 Það telst kannski ekki til stórtíðinda að páfabréf séu gefin út, en að meðaltali birtast slíkir pappírar annað hvort ár eða þar um bil. Hins vegar þykir innihald bréfsins sæta tíðindum og jafnvel vera byltingarkennt. Þetta tiltekna páfabréf er alfarið helgað umhverfismálum og svoleiðis páfabréf hefur aldrei verið skrifað áður. Bréfið hefur því eins og að líkum lætur fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum víða um heim. Hins vegar virðast fjölmiðlar á Íslandi ekki hafa sýnt þessu neinn áhuga. Kannski finnst einhverjum að páfabréf eigi lítið erindi til Íslendinga, því að hér séu svo fáir kaþólikkar. En maður þarf ekki að hætta lengi að horfa á tærnar á sér til að skilja að boðskapur páfabréfsins er ekkert einkamál kaþólikka. Þetta tiltekna bréf gæti nefnilega haft veruleg áhrif á þróun loftslagsumræðunnar næstu mánuði, hvað sem öllum trúarbrögðum líður, og á næstu mánuðum ræðst einmitt hvort loftslagsráðstefnan COP-21 í París í desember muni standa undir væntingum eða verða einhvers konar FLOP-21 sem slekkur á síðustu voninni um að takast megi að koma böndum á loftslagsbreytingar þannig að meðalhitastig á jörðinni hækki ekki langt umfram 2°C til næstu aldamóta.

 Nú er eðlilegt að spurt sé hvað standi eiginlega í þessu merkilega páfabréfi. Við þeirri spurningu er ekki hægt að gefa tæmandi svar í þessum pistli, enda er bréfið allt um 180 blaðsíður. Í stuttu máli er þó meginboðskapurinn sá að ríkari þjóðir heimsins verði að gera upp siðferðilegar skuldir sínar við þær fátækari og grípa til markvissra aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Verði þetta ekki gert sé sameiginlegu heimili jarðarbúa stefnt í voða, en það sé nú þegar farið að líkjast „haug af ógeði“ eins og orð páfa hljóða í lauslegri íslenskri þýðingu. Kjarninn í páfabréfinu er í raun og veru ákall um að mannkynið hætti að nota jarðefnaeldsneyti. Engu er líkara en að bréfið sé skrifað af aðgerðarsinna, sem er í senn reiður yfir því hvernig menn hafa haldið á spöðunum og fullur umhyggju fyrir þeim sem minna mega sín. Mannkynið hafi misnotað auðlindir sínar í 200 ár og hingað til hafi menn leyft sér að fljóta áfram í einhvers konar fagnandi skeytingarleysi. Sívaxandi misrétti eigi líka stóran þátt í því hvernig komið er.

 „Loftslagsbreytingar eru hnattrænt vandamál með grafalvarlegum afleiðingum í umhverfislegu, samfélagslegu, efnahagslegu og pólitísku tilliti“ segir páfinn í bréfi sínu. Og ekki nóg með það, heldur komi þessar afleiðingar harðast niður á fátækustu jarðarbúunum. Í bréfinu hafnar Frans páfi hugmyndum um einfaldar lausnir á loftslagsvandanum, þar með töldum hugmyndum um framseljanlega kolefniskvóta sem hann telur bjóða upp á skaðlega spákaupmennsku.

Því fer fjarri að allir séu ánægðir með að páfinn skuli tjá skoðanir sínar á vísindum og stjórnmálum í páfabréfinu. Þannig finnst mörgum þeirra sem afneita vilja tilvist loftslagsbreytinga af mannavöldum að páfinn eigi halda sig til hlés í þeirri umræðu, þar sem hann sé jú enginn vísindamaður. Forsetaefnisframbjóðandinn Jeb Bush er áberandi í þeim hópi. Kardínálinn Peter Turkson hefur hins vegar bent á að það væri beinlínis einkennilegt ef páfinn ætti ekki að skipta sér af vísindum. Vísindin séu almenningseign og þar með eitthvað sem hver sem er geti nýtt sér og talað um. Vissulega geti stjórnmálamenn ákveðið að leiða orð páfa hjá sér, en það verði þá að gera á öðrum forsendum en þeim að páfinn sé ekki vísindamaður. Einhver orðaði það svo að páfinn væri einfaldlega að sinna skyldum sínum sem trúarleiðtogi. Okkur beri að breyta rétt, jafnvel þótt það sé óvinsælt.

 Nú velta menn því eðlilega fyrir sér hvaða áhrif páfabréfið hafi á loftslagsumræðuna. Þar sýnist sjálfsagt sitt hverjum, en Austen Ivereigh, sem m.a. hefur ritað ævisögu Frans páfa, telur að páfabréfið muni skipta sköpum í þeim efnum. Boðskapur þess um að kaþólikkar þurfi að umbylta mörkuðum með því að breyta neysluvenjum sínum geti leyst úr læðingi samtakamátt sem eigi engan sinn líka. Það sé ekki lengur bara gott að vera grænn, það sé beinlínis skylda. Í þessu sambandi er líka rétt að hafa í huga að formlega séð felur innihald páfabréfs í sér opinbera afstöðu kaþólsku kirkjunnar í heild til þeirra mála sem þar er fjallað um.

 Christiana Figueres, framkvæmdastjóri Loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna, er líka þeirrar skoðunar að páfabréfið hafi mikla þýðingu og sé til þess fallið að stuðla að sterku og varanlegu samkomulagi á loftslagsráðstefnunni í París, m.a. vegna þess hvernig það tengir saman efnahagslegar og siðferðilegar skyldur manna. Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans, tekur í sama streng. Páfabréfið feli í sér öfluga áminningu um hin eðlislægu tengsl milli loftslagsbreytinga og fátæktar.

 Svo eru líka til hópar fólks sem vona að páfabréfið hafi alls engin áhrif á umræðuna, því að í því fari páfinn langt út fyrir verksvið sitt. Þetta á m.a. við um marga kaþólikka í Bandaríkjunum, sem margir hverjir afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum. Hins vegar eru forsvarsmenn kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum ekki í nokkrum vafa, kirkjunni beri að fylgja orðum páfa í þessum efnum. Í samræmi við þetta hefur kirkjan þrýst á þingið og Hvíta húsið að koma brýnum verkefnum í loftslagsmálum í framkvæmd án tafar. Kaþólska kirkjan bendir einkum á þrjú verkefni í þessu sambandi. Innleiða þurfi nýjar reglur Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna um orkuver, ganga frá stofnun loftslagssjóðs fyrir þróunarlöndin og afgreiða fyrirliggjandi frumvarp um bætta orkunýtingu. Forystumenn kirkjunnar vestra eru líka farnir að aðstoða presta við að fella umfjöllun um loftslagsmál inn í sunnudagsprédikanir sínar.

 Strax á þessum fyrstu dögum eftir útkomu páfabréfsins virðist áhrifa þess líka vera farið að gæta meðal þeirra sem aðhyllast önnur trúarbrögð. Þannig hafa meira en 300 rabbínar skrifað undir áskorun til fjárfesta í röðum gyðinga um að selja hluti sína í kolaorkuverum og fjárfesta þess í stað í vindorku. Ef fjárfestar taka við sér í samræmi við þetta gætu miklar breytingar verið í kortunum.

 „Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina“, eins og einhver orðaði það. Síðasta eina eða eina og hálfa árið hefur þó mátt sjá greinileg teikn um að forsvarsmenn í atvinnulífinu séu komnir skrefinu lengra en flestir þjóðarleiðtogar í að gera sér grein fyrir hættunum sem felast í óbreyttri stefnu og nýsköpunartækifærunum sem bíða handan við hornið ef menn hafa kjark til að breyta. Og nú virðist kaþólska kirkjan líka vera komin fram úr pólitíkinni hvað þetta varðar.

 Í grein sem Gary Gardner skrifaði í ritið State of the World 2010, sló hann því fram að til þess að breytingar gætu orðið á neysluvenjum þyrfti umhverfisáherslan að verða hluti af grunngildum fólks eða fá með öðrum orðum sömu stöðu og ritúöl og tabú, eins og helgiathafnir og forboðnir ávextir eru nefnd á erlendum málum. Umræða síðustu daga gæti bent til þess að þetta sé að verða að veruleika.

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður