Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Óvíst um ábyrgð vegna skemmda á Orkuveituhúsi

29.08.2017 - 18:56
Óljóst er hver ber ábyrgð á milljarðatjóni á húsi Orkuveitunnar, en tjónið mun bitna á viðskiptavinum fyrirtækisins. Fyrrverandi byggingarfulltrúi Reykjavíkur segir eigendur ábyrga fyrir framkvæmdum vegna nýbygginga.

Vesturhús Orkuveitunnar er ónýtt vegna raka og myglu. Að sögn forstjóra Orkuveitunnar kemur tjónið til með að lenda á viðskiptavinum fyrirtækisins með einum eða öðrum hætti. Fyrirtækið skoðar nú réttarstöðu sína meðal annars með tilliti til skaðabóta. Alls óvíst er hver ber ábyrgð, og bendir hver á annan.

Fjölmargir komu að byggingu hússins. Húsið var byggt samkvæmt vinningstillögu Hornsteina arkitekta og Teiknistofu Ingimundar Sveinssonar. ÞG Verk var aðalverktaki við framkvæmdina. Þá kom Almenna verkfræðistofan - síðar Verkís, Rafhönnun og VSI Öryggishönnun, sem varð síðar Lota, að verkinu og Línuhönnun, síðar Efla verkfræðistofa, að hönnun burðarvirkja. VSÓ ráðgjöf sá um verkefna- og hönnunarstjórn. Byggingarstjórn og eftirlit var í höndum Verkfræðiþjónustu Magnúsar Bjarnasonar. Hvert byggingarstig var tekið út af byggingarfulltrúa Reykjavíkur. Efniviður veggjaklæðningarinnar kom frá Byko og danska framleiðandanum HSHansen.

Aðalverktakinn útilokar ábyrgð

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri aðalverktakans ÞG Verks, útilokar að fyrirtækið beri ábyrgð á stöðu hússins. Orkuveitan hafi tekið allar ákvarðanir um innkaup og val á útveggjakerfi í húsinu, í samráði við ráðgjafa og hönnuði hússins. Ekki náðist í talsmenn Hornsteina arkitekta í dag, sem höfðu yfirumsjón með hönnun hússins.

Samkvæmt nýlegri úttekt verkfræðistofunnar Eflu á mygluskemmdunum voru margskonar ágallar á uppsetningu útveggjar, til dæmis voru skrúfur of langar, samskeyti óþétt og lekar í kverkum. Magnús Bjarnason, sem var byggingarstjóri yfir framkvæmdunum segir þetta koma á óvart. Allur efniviður við uppsetningu klæðningar hússins hafi komið frá Byko, sem var umboðsaðili danska framleiðandans HS Hansen á veggjakerfinu. Magnús segir að uppsetningin hafi verið gerð samkvæmt fyrirmælum framleiðandans, sem hafi sent starfsmenn hingað frá Danmörku til að leiðbeina við verkið. 

Segir ekkert benda til að danska klæðningin sé gölluð

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko, segir of snemmt að tjá sig um málið. Til þess séu of margir óvissuþættir. Hann segir að ekkert bendi til þess að klæðningin sé gölluð, hún hafi verið tekin út og vottuð á sínum tíma. Ómögulegt sé að segja að svo stöddu hvort um sé að kenna veggjakerfinu sjálfu, uppsetningu klæðningarinnar, viðhaldi eða skorti á viðhaldi, eða lélegs frágangs. 

Mikill hraði á framkvæmdum

Þorbergur Karlsson, hjá VSÓ ráðgjöf, segir að mikill hraði hafi einkennt framkvæmdirnar. Hann bendir á að allar byggingar Orkuveituhússins, ekki bara vesturhúsið, hafi verið byggðar með sama hraða. Aftur á móti sé lögun vesturhússins önnur og önnur klæðning. Rakinn og myglan virðist því til komin vegna þess að klæðningin leki, ekki vegna raka innan frá.

Eigendur húsa ábyrgir fyrir framkvæmdum

Magnús Sædal Svavarsson, sem var byggingarfulltrúi Reykjavíkur á þessum tíma, segir að allt hafi verið með felldu með bygginguna samkvæmt lokaúttekt á húsinu við lok framkvæmda. Hann bendir á að lögum samkvæmt beri eigandi ábyrgð á byggingarframkvæmdum.

„Viðhaldslítið hús“

Guðmundur Þóroddson var forstjóri Orkuveitunnar þegar húsið var byggt. Í fréttum Rúv um helgina sagði Guðmundur að hann telji slæmu viðhaldi um að kenna hvernig fór. Mjög hafi verið dregið úr viðhaldi í sparnaðaraðgerðum eftir hrun. Hjörleifur Kvaran, sem var forstjóri Orkuveitunnar á þeim tíma, vildi ekki tjá sig þegar eftir því var leitað. Í skýrslu úttektarnefndar um Orkuveituna frá 2012 var haft eftir Ólöfu S. Pálsdóttur, sem var framkvæmdastjóra fjármála og sviðstjóri fjármála Orkuveitunnar á þeim tíma þegar húsið var byggt, að húsið á Bæjarhálsi væri fremur viðhaldslítið. Þetta átti að spara rekstrarkostnað. „Rekstrarkostnaðurinn af þessu húsi er ekki hár miðað við rekstrarkostnað þeirra bygginga sem fyrirtækið var í áður. Húsið á Bæjarhálsi er fremur viðhaldslítið,“ sagði Ólöf í viðtali við nefndina.

Lak ári eftir vígslu hússins

Fyrst varð vart við leka á austurvegg vesturhússins árið 2004. Húsið var þá lagfært í samstarfi við Byko. Aftur kom upp leki árið 2009 og 2014, þá á þaki vesturhússins. Samkvæmt svari frá Orkuveitunni var gripið til aðgerða og þakið lagfært í bæði skiptin. 

Orkuveitan seldi húsið félagi í eigu lífeyrissjóða árið 2013 og gerði um leið leigusamning til tuttugu ára. Samkvæmt honum annast Orkuveitan viðhald hússins. Gerð var ástandsskoðun á húsinu áður en það var selt. Hvorki fundust mygluskemmdir né leki í veggjum við þá skoðun. 

Hálfur milljarður í tilraunaviðgerð

Eftir að starfsmenn veiktust árið 2015 fannst mikil mygla í veggjum vesturhússins. Hálfum milljarði króna var varið í tilraun til að laga húsið. Niðurstaðan var sú að það er ekki hægt.

Orkuveitan ætlar að fá dómkvaddan matsmann til að taka út byggingar- og viðhaldssögu hússins, og vonast til að komast til botns í því hvað varð til þess að vesturhúsið er ónýtt.