Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óvissustig á Vesturlandi til mánaðamóta

27.06.2019 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ástandið í Skorradal er óbreytt þrátt fyrir vætusamt veður á svæðinu undanfarna tvo daga. Eftir langvarandi þurrka þarf töluvert mikla úrkomu til að bleyta jarðveginn. Óvissustig almannavarna fyrir Vesturland verður í gildi fram að mánaðamótum.

Nú eru rúmar tvær vikur síðan Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti yfir óvissustigi vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi, einkum í Skorradal. Þar er mikill trjágróður og fjöldi fólks í sumarbústöðum. Gróður er skrjáfaþurr og því hætt við að eldur breiðist hratt út ef hann kviknar. 

Þegar langvarandi þurrkur hefur veirð þá þarf töluvert mikla úrkomu til að bleyta í jarðvegi. Þegar jarðvegurinn þornar þá harðnar hann og myndar skel sem gerir það að verkum að þrátt fyrir að rigni þá rennur vatnið af yfirborðinu og nær ekki að bleyta jarðveginn. Rakinn nær ekki niður í ræturnar og bæði grös, blómjurtir og trjágróður verða áfram skrjáfþurr. 

Bjarni K. Þorsteinsson slökkviliðsstjóri slökkviliðs Borgarbyggðar, segir að óvissustigið verði látið hanga inni til mánaðamóta. Eftir það verði staðan endurmetin. Hann segir að enn hafi engin óhöpp orðið vegna þurrkanna. 

„Nei sem betur fer ekki, fólk hefur farið varlega og fyrir það erum við afskaplega þakklátir.“

Bjarni vill hvetja fólk til að fara varlega með opinn eld og láta einnota grill eiga sig. „Þau geta skapað hættu í svona aðstæðum. Fólk hendir þessu á gróið land og fer svo frá þessu. Þetta er þurr skógarbotninn þarna og við vitum alveg hver afleiðingin verður af því, “ segir Bjarni. 

Stýrihópur sem vinnur að forvörnum vegna hættu á gróðureldum hefur sett fram ráðleggingar handa þeim sem dvelja á hættusvæði.